138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

skuldavandi heimilanna.

[15:13]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get ekki tekið undir að þessi nýsetta löggjöf geri meiri skaða en gagn. Það eru auðvitað engar fullkomnar lausnir til í ófullkomnum heimi. En ég held að með þessari löggjöf höfum við farið eins nærri því að finna þá lausn sem best gagnast stærstum fjölda fólks með almennum aðgerðum, þ.e. með því að gefa fólki fyrirheit um að greiðslur verði héðan í frá í samræmi við launaþróun frekar en í samræmi við annaðhvort verðlagsþróun eða gengisþróun. Hvort tveggja eru stærðir sem fólk hefur afskaplega litla stjórn á og lítil tengsl við og þær hafa óverulega tengingu til skemmri tíma litið við afkomu þorra fólks. Ég held þess vegna að sú hugmyndafræði sem byggir á því að gera fólk sem var í reynd í lagi fyrir hrun áfram svo sett eftir hrun þannig að það geti staðið í skilum með skuldbindingar sínar, sé skynsamlegasta og eðlilegasta leiðin til að taka á þessum vanda.

Ég held síðan að hvað varðar höfuðstólslækkun til viðbótar komum við alltaf að þeim vanda hvar finna eigi svigrúm til slíkra aðgerða. Það er auðvitað ljóst að ýmsar bankastofnanir bjóða nú höfuðstólslækkun sem felst í núvirðingu lána með tilboðum um breytingu á lánaformum og annað slíkt, einkum með umreikningum og núvirðingu lána úr gengistryggðum lánum yfir í innlend, óverðtryggð kjör eða úr verðtryggðum lánum í innlend óverðtryggð kjör. Það er auðvitað hverjum í sjálfsvald sett að gera það.

Að því er varðar frekari leiðir til að lækka höfuðstól sé ég ekki alveg hvert svigrúmið þar er. Hv. þingmaður vísar í afskriftir sem eru í bönkunum að öðru leyti í málefnum fyrirtækja og bankarnir verða auðvitað að útskýra svigrúm sitt þar. En það sem ég held að við endum alltaf á er spurningin: Hverjir eiga þá að greiða fyrir höfuðstólslækkanir sem eru umfram núvirðingu (Forseti hringir.) þeirra lána sem hér um ræðir?