138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

skuldavandi heimilanna.

[15:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Sama spurning hlýtur að vakna varðandi heimilin og afskriftir af lánum hjá þeim eins og þegar verið er að afskrifa verulegan hluta af lánum fyrirtækja. Það er yfirleitt gert með þeim rökum að ekki sé um annað að ræða, þetta sé nauðsynlegt til að fyrirtæki geti haldið áfram rekstri og til að allt efnahagslíf á Íslandi hrynji ekki.

Nú á það sama ekki við um heimilin. Við höfum bent á það og margreynt að útskýra fyrir hæstv. félagsmálaráðherra og öðrum að með því að ráðast í leiðréttingu strax, leiðréttingu þar sem vel að merkja er gert ráð fyrir við færslu lánanna frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju, megi koma í veg fyrir það tjón sem óumflýjanlega felst í því að hafa skuldabyrðina hangandi yfir heimilunum, skuldabyrði sem á endanum verður ekki hægt að greiða. Ég spyr þá hæstv. ráðherra hreint út: Hvað finnst ráðherranum um þær afskriftir sem nú er verið að ræða að verði veittar fyrirtækinu Högum og hvernig getur hann réttlætt að ekki sé ráðist í afskriftir til íslenskra heimila í samanburði við það?