138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

skuldavandi heimilanna.

[15:17]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú þekki ég ekki þau mál sem hv. þingmaður spyr mig um enda eru þau ekki á mínu borði. En ég geri einfaldlega ráð fyrir því að viðkomandi bankar séu að vinna að því að hámarka virði þeirra eigna sem þeir eru með í höndunum.

Það sem er alltaf veiki hlekkurinn í allri þessari umræðu sem hv. þingmaður stillir upp er einfaldlega að í yfirfærslunni á eignum gömlu bankanna yfir í þá nýju var gert ráð fyrir tiltekinni tapsáhættu af lánum. Með þeim aðgerðum sem við samþykktum í lagaformi fyrir tveimur vikum er gert ráð fyrir ákveðnu svigrúmi og að það verði nýtt til að mæta óhjákvæmilegri fjárhagslegri endurskipulagningu hjá þeim heimilum sem ekki ráða að óbreyttu við greiðslu skulda sinna. Það er því gert ráð fyrir að þetta svigrúm verði nýtt til fulls í þeirri sértæku skuldaaðlögun sem þar er gert ráð fyrir. Að öðru leyti er ekki um neitt svigrúm að ræða og auðvitað er ekki hægt að dreifa sömu afskriftinni út tvisvar.