138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

Fjármálaeftirlitið.

[15:18]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um samskipti ráðuneytis hans og Fjármálaeftirlitsins. Þegar haft er í huga að Fjármálaeftirlitið er sú stofnun stjórnsýslunnar sem virðist hafa brugðist fremur en aðrar í aðdraganda hrunsins og að eingöngu hefur verið skipt út einum starfsmanni, forstjóranum, vil ég spyrja ráðherrann eftirfarandi spurninga:

1. Hefur hæstv. ráðherra skipulagt einhvers konar eftirlit ráðuneytisins með Fjármálaeftirlitinu og þá hvernig?

2. Ef ekki, er það þá hugmynd hans að sama starfsfólk Fjármálaeftirlitsins sinni áfram fjármálaeftirliti með óbreyttum hætti?

3. Hefur hann gefið stjórn Fjármálaeftirlitsins einhver fyrirmæli um breytt eftirlit og betri starfshætti og þá hver?

4. Eru sömu starfsmenn viðskiptaráðuneytisins og sinntu samskiptum við Fjármálaeftirlitið fyrir hrunið enn þá í sömu stöðu í ráðuneytinu og með sama hlutverk?