138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

endurskoðun AGS og afgreiðsla Icesave.

[15:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það var frá því gengið eins og ég held að hafi þegar hafi verið upplýst að þegar viðaukasamkomulag um Icesave-málið var í höfn færi fram endurskoðun á málefnum Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, samanber yfirlýsingu landanna þriggja þar sem komið er inn á það mál og það hefur allt gengið eftir.

Eru einhverjir fyrirvarar af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tengdir við endurskoðunina? Nei, ekki er mér kunnugt um það. Eru einhverjar aðgerðir líklegar ef eitthvað ber út af í þessum efnum? Nei, ekki er mér kunnugt um það, enda geri ég ráð fyrir því að Icesave-málið fái farsæla afgreiðslu og lyktir. (Gripið fram í.) Það sem hv. þingmaður nefnir um að birtingu starfsmannaskýrslunnar hafi verið frestað, eru nýjar fréttir fyrir mér og ég hef engar skýringar á því. Ég hafði gert ráð fyrir því og við höfum gert ráð fyrir að hún kæmi fram nú á þessum dögum eftir endurskoðunina eins og venja er þannig að ég ímynda mér, þangað til annað kemur í ljós, að þar sé um einhvern mjög stuttan tíma að ræða.