138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

endurskoðun AGS og afgreiðsla Icesave.

[15:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög athyglisvert svar hjá hæstv. fjármálaráðherra. Engir fyrirvarar vegna þess að hann gerir ráð fyrir því að þetta fari allt saman í gegn. Það er þá gott að ríkisstjórnin skuli vera með tryggan þingmeirihluta fyrir frumvarpi sínu, það eru ákveðin nýmæli fólgin í því og við getum fagnað því. En hins vegar vil ég fá að spyrja hæstv. fjármálaráðherra beint út: Er þetta mál komið í það skýran og endanlegan búning, eins og ég held að hann hafi notað sjálfur, að það megi ekki breyta einu eða neinu? Við getum fallist á að það er allt til þess vinnandi að ljúka þessu máli farsællega, ég get alveg tekið undir það, en það er ekki þar með sagt að það verði endilega að ljúka því á þann hátt sem liggur fyrir í frumvarpsdrögum. Er t.d. svigrúm til að taka tillit til athugasemda manna eins og t.d. Stefáns Más Stefánssonar og Lárusar Blöndals sem birtust í blaðagrein í Morgunblaðinu á laugardaginn? Getum við verið þess fullviss að þingið fái tækifæri (Forseti hringir.) til að setja sitt mark á þetta eða er búið að gera eitthvert skúffusamkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að þetta verði sá skýri og endanlegi búningur sem málið (Forseti hringir.) er komið í?