138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landflutningalög.

58. mál
[16:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég held að ég hafi komið inn á það varðandi póstflutningana, þar gilda einfaldlega lög nr. 19/2002, um póstþjónustu, eins og segir hér í 5. gr.

Aðeins af því að hv. þingmaður ræðir þann þátt sem settur var inn í fjárlög fyrir árið 2008 með 150 millj. kr. framlagi sem fyrst var eyrnamerkt flutningsjöfnun til Vestfjarða en breyttist í meðförum fjárlaganefndar í flutningsjöfnun almennt skal bent á að þáverandi ríkisstjórn vildi nýta fjárframlagið og leggja það til flutningsjöfnunar. En þá kom í ljós að reglur um hvernig nota mætti þetta og hvernig best væri að nota þetta til flutningsjöfnunar, höfðu ekki verið undirbúnar. Það fór nefndarvinna í gang á vegum þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar, undir forustu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar. Það var mjög góð vinna og þar voru settar fram tillögur og ábendingar sem nýtast vel.

Hins vegar gerðist það í millitíðinni að rétt eftir þetta varð hið mikla banka- og efnahagshrun. Það var þá sem þessar 150 milljónir duttu út annaðhvort við lokafjárlög eða breytingu á fjárlögum, því miður, og þurftum við þá að sjá á eftir þessu. Þá var efnahagshrunið skollið á og þess vegna var þetta ekki nýtt.

Vegna þess að flutningsjöfnunarsjóður olíuvara er enn þá á lífi, sem betur fer, er skemmst frá því að segja að þegar ég kom fyrst inn í ríkisstjórn í maí 2007 og verið var að vinna að fjárlögum fyrir árið 2008 var þar í tillögum ákvæði um að fella niður þann sjóð. Ég man eftir því að við nýir ráðherrar Samfylkingar spurðum hvar sú ákvörðun hefði verið tekin, því að ekki tókum við hana. Svarið var einfaldlega þetta: Sú ákvörðun var tekin hjá þáverandi ríkisstjórn sem var að fara frá, hún var tekin í fjármálaráðgjafahóp ráðherra sem þá sátu, en það gekk sem betur fer ekki eftir, þökk sé m.a. nefndinni (Forseti hringir.) sem vann að þessu flutningsjöfnunarmáli.