138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[16:33]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur frumvörpum. Annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjuskatt, með síðari breytingum, á þskj. 82, og hins vegar frumvarp til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, á þskj. 83. Eins og heyra má er annars vegar um að ræða frumvarp til nýrra laga um stuðning eða stuðningsumhverfi við nýsköpunarfyrirtæki og hins vegar frumvarp til laga um nauðsynlegar breytingar á ákveðnum þáttum laga um tekjuskatt sem gera þarf samhliða. Frumvörp þessi eru þar af leiðandi samhangandi og eðlilegt að þau séu rædd saman.

Hér er að finna tillögur sem miða að því að bæta samkeppnisskilyrði og starfsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja, en bætt umhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja er eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar. Verði frumvörp þessi að lögum má vænta þess að hagfelldari skattaleg skilyrði hérlendis geti leitt til þess að störfum í rannsókn og þróun innan íslenskra fyrirtækja fjölgi umtalsvert, fyrir utan að sjálfsögðu megintilganginn, að skapa hér hagstæð skilyrði og hvetja til starfsemi á þessum sviðum og störfum fjölgi. Frumvörpunum er ætlað að vera hvati fyrir nýsköpun og þróun bæði í nýjum sem og starfandi og rótgrónum fyrirtækjum.

Þeir lögaðilar sem einir teljast falla undir ákvæði frumvarpsins um stuðning við nýsköpun verða þeir sem hlotið hafa staðfestingu Rannsóknamiðstöðvar Íslands, þ.e. Rannís, og skattaframkvæmdin mun verða í höndum embættis ríkisskattstjóra.

Frumvörpin ganga út á tvíþættar aðgerðir til að styðja við nýsköpun í íslensku atvinnulífi sem báðar stefna að sama marki en með ólíkri framkvæmd og útfærslu.

Í fyrsta lagi er lagður til beinn stuðningur í formi skattfrádráttar vegna rannsóknar- og þróunarverkefna hjá nýsköpunarfyrirtækjum sem fengið hafa þar til bæra viðurkenningu af Rannís. Þessi skattfrádráttur reiknast sem ákveðið hlutfall, eða 15%, af raunverulegum rannsóknar- og þróunarkostnaði óháð færslu hans í bókhaldi. Þannig skiptir ekki máli hvort umræddur kostnaður er gjaldfærður strax og hann fellur til eða er eignfærður og gjaldfærður síðar. Réttur þessi mun standa öllum fyrirtækjum til boða sem fengið hafa staðfestingu hjá Rannís og verður kostnaður vegna rannsókna og þróunar að nema að lágmarki 20 millj. kr. á ári til að réttur skapist. Hámark styrkhæfs kostnaðar er 50 millj. kr. á ári, eða 75 millj. kr. ef um aðkeypta þjónustu er að ræða. Það þýðir að styrkur hvers fyrirtækis getur orðið á bilinu 3–11 millj. kr. á ári. Gert er ráð fyrir því að skattyfirvöld meti réttmæti kostnaðarliða á grundvelli þess sem almennt gildir um rekstrarkostnað og sjái um ákvörðun hins sérstaka frádráttar frá skatti við álagningu opinberra gjalda. Sé skattfrádrátturinn hærri en nemur álögðum tekjuskatti er mismunurinn greiddur út til viðkomandi fyrirtækis. Sé tekið mið af reynslu Norðmanna og reynslu Tækniþróunarsjóðs er ekki óvarlegt að ætla að fjöldi samþykktra nýsköpunarverkefna gæti orðið á bilinu 100–150 á ári og að meðalstærð verkefnis verði 30–40 millj. kr. Miðað við þær forsendur næmi stuðningurinn 450–750 milljónum á ári, væntanlega eitthvað lægri fjárhæð fyrsta árið en færi hækkandi annað og þriðja árið og næði síðan ákveðnu jafnvægi.

Í öðru lagi er um að ræða frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga manna og lögaðila í nýsköpunarfyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að frádrátturinn muni hvetja menn og lögaðila til slíkra fjárfestinga og um leið aukist eigið fé nýsköpunarfyrirtækja, enda er miðað við að um viðskipti með nýtt hlutafé sé að ræða. Gera má ráð fyrir að aukning eigin fjár leiði til þess að nýsköpunarfyrirtækjum bjóðist betri möguleikar á lánsfjármörkuðum. Fjárfestar öðlast þannig heimild til frádráttar frá skattskyldum tekjum vegna kaupa á hlutabréfum í viðurkenndum nýsköpunarfyrirtækjum sem ætti að virkja hvetjandi og auka áhuga þar á. Í frumvarpinu er lagt til að einstaklingar geti varið allt að 300 þús. kr. árlega til hlutafjárkaupa í nýsköpunarfyrirtækjum, sem myndi frádrátt frá tekjuskattsstofni þeirra og er sú fjárhæð tvöföld hjá hjónum. Sé við það miðað að 1.000 einstaklingar og sami fjöldi hjóna fjárfesti samkvæmt hámarksfjárhæð í slíkum bréfum, eða samtals um 900 millj. kr., lækkar tekjuskattur þessara aðila um 200–250 millj. kr. og tekjur ríkissjóðs samsvarandi. Jafnframt lækka tekjur sveitarfélaga í formi útsvars um liðlega 100 millj. kr. Miðað við framangreindar forsendur nemur stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki í þessu formi því um 300–350 millj. kr. Þá er lagt til að lögaðilar geti fjárfest fyrir allt að 15 millj. kr. árlega í slíkum bréfum sem samhliða veiti þeim rétt til frádráttar frá tekjuskattsstofni. Sé gengið út frá þeim forsendum að 250 lögaðilar nýti sér þennan rétt árlega, þ.e. kaupi hlutabréf í nýsköpunarfyrirtækjum fyrir 3,5–4 milljarða kr., gæti það lækkað tekjuskattsgreiðslur þeirra um nálægt 500 millj. kr. á ári.

Þegar allt er lagt saman gæti ríkisaðstoð í formi þeirra skattaívilnana sem áður er lýst því numið 1.200–1.500 millj. kr., auk þess sem stuðningur sveitarfélaga í formi lægra útsvars næmi liðlega 100 millj. kr. Þá er ótalinn sá stuðningur sem fram kæmi sem aukið hlutafé til viðkomandi nýsköpunarfyrirtækja frá einstaklingum og fyrirtækjum í stað lánsfjár verði frumvörpin að lögum en áhrif þess munu fyrst koma fram við álagningu opinberra gjalda á árinu 2011. Hafa ber þó í huga að erfitt er að meta af einhverri nákvæmni beinan kostnað ríkissjóðs af umræddri ríkisaðstoð við nýsköpunarfyrirtæki. Þær fjárhæðir sem hér hafa verið nefndar eru mikilli óvissu háðar og er þeim fyrst og fremst ætlað að gefa lauslega hugmynd um möguleg áhrif af tillögum frumvarpanna.

Hér hefur einungis verið horft til þeirra útgjalda sem opinberir aðilar kunna að verða fyrir með beinum hætti verði frumvörpin að lögum. Markmið stjórnvalda með slíkum stuðningi er vitaskuld að stuðla að verðmætaaukningu í íslenskum þjóðarbúskap með sköpun nýrra atvinnutækifæra og fjölgun starfa sem ella hefðu ekki orðið til. Sú verðmætasköpun mun án efa leiða til aukinna skatttekna, bæði beinna og óbeinna, til langrar framtíðar sem búast má við að geri gott betur en að vega upp beinan kostnað af þeirri ríkisaðstoð sem efnt kann að verða til í þessu sambandi. Hver nettóáhrifin verða til lengri tíma litið á afkomu ríkissjóðs, sveitarfélaga og þjóðarbúsins alls er útilokað að meta í fjárhæðum á þessu stigi.

Það er þó alveg ljóst að í þessu tilviki mundu væntanlega flestir fagna því að umfangið yrði frekar meira en minna, samanber það sem hér hefur áður verið sagt að enginn vafi er á að hið opinbera, ríki, sveitarfélög og þjóðarbúið allt fær það margfalt til baka. Í fyrstunni í formi þess að störf skapast, ekki síst fyrir vel menntað fólk sem nú er margt án atvinnu við núverandi aðstæður. Þar með byrja strax að myndast verðmæti í formi starfa og verkefna sem gefa af sér í þeim skilningi, þó að aðalávinningurinn sé að sjálfsögðu væntanlega í þeim verkefnum sem komast út í lífið og verða að atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun til lengri framtíðar litið.

Ég leyfi mér því að nota þetta tækifæri og hvetja til dáða alla þá sem eru með áform á prjónunum í þessum efnum. Ég veit að þau eru mörg. Eftir þessum frumvörpum hefur lengi verið beðið og ég er sannfærður um að aukinn kraftur mun færast í nýsköpunar- og þróunarstarf bæði á sviði nýrra verkefna og sprotafyrirtækja sem vaxa úr grasi sem og innan starfandi fyrirtækja þar sem rannsóknar- og þróunarvinna er umtalsverð. Því er ástæða til að hvetja til þess að tækifæri og möguleikar sem frumvörpin fela í sér, verði þau að lögum, verði nýtt jafnvel þó að í fyrstunni líti svo út sem með því verði ríkið af nokkrum tekjum. Reyndar eru það ekki tekjur sem eru í hendi og fyrst og fremst er verið að veita afslætti vegna aukins umfangs starfsemi á þessum sviðum sem, eins og áður sagði, mun skila sér með margvíslegum hætti til baka.

Að þessu sögðu, frú forseti, legg ég til að frumvörpunum verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari. Ég held að eðlilegast sé að frumvörpin fylgist að og þar sem megininntak þeirra er skattalegs eðlis sé eðlilegast að fela efnahags- og skattanefnd að hafa forræði á málinu.