138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[16:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil sem formaður efnahags- og skattanefndar fá að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir ágæta greinargerð á málinu og sömuleiðis fyrir að flytja það. Ljóst er að þegar kemur að sköttum stöndum við frammi fyrir mörgum erfiðum verkefnum og höfum þurft að fara með mörg erfið mál í gegnum þingið nú þegar á þessu ári og þess vegna er sérlega gleðilegt að fá inn jákvætt skattamál, til þess gert að hvetja til fjárfestinga og þróunar í samfélaginu, sem er auðvitað gríðarlega mikils vert á þeim tímum sem við lifum. Við höfum jú staðið í því að taka á málum í framhaldi af hruninu og leysa úr margvíslegum vandamálum sem því hafa fylgt, bæði efnahagslegum og í viðskipta- og fjármálalífi þjóðarinnar, og erum auðvitað alltaf að átta okkur betur og betur á þeirri mynd sem þar blasir við. Við sjáum þó að með því að taka á í sameiningu eigum við Íslendingar að geta sigrast á þeim viðfangsefnum sem við okkur blasa, en þar mun auðvitað ráða gríðarlega miklu um gæfu okkar atvinnusköpun hér á landi á komandi árum og verðmætasköpun á næstu missirum og árum, það að okkur takist að skapa hér ný störf og ný fyrirtæki til þess að skapa ný verðmæti sem mun hjálpa okkur að takast á við þau verkefni sem við er að fást, baka kökuna.

Þetta mál er sannarlega framlag til þess að styrkja þátt nýsköpunar og þróunar í efnahagsstarfseminni og þar getum við auðvitað lært margt af frændum okkar Finnum, hvernig þeir fóru í sinni kreppu í að leggja stóraukna áherslu á rannsóknir og þróun og nýsköpun hvers konar. Ég held að þessu máli verði víða fagnað og ég hlakka til að taka það til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd og treysti því að þar verði umfjöllun bæði málefnaleg og snör, þannig að menn geti hafist handa við að hrinda málinu í framkvæmd.