138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[17:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin í seinni ræðu hans. Mér fannst hæstv. ráðherra kannski ekki svara því skýrt hvaða framtíðarsýn hann hefði um þau nýju vinnubrögð sem við mörg hver viljum hafa hér á vettvangi þingsins og fór að vitna til fortíðarinnar, en ég held að við þurfum að rjúfa þá hefð sem hefur einkennt störf þingsins á undangengnum árum. Mig minnir að þegar hæstv. ráðherra var í stjórnarandstöðu hafi hann einu sinni sagt að völd þingsins mörkuðust af völdum stjórnarandstöðunnar. Með þeim orðum á hann væntanlega við að ráðherraræðið hafi þá verið of mikið, sem er vissulega rétt. En ætlum við að viðhalda þessu? Eins og ég benti á í fyrri ræðu minni þá er sveitarstjórnarstigið að mörgu leyti til ákveðinnar fyrirmyndar í þessu, þar sem í hverri einustu sveitarstjórn eru oftsinnis samþykktar einhverjar tillögur sem aðilar í minni hluta hafa lagt fram. Það er náttúrlega þinginu til vansa að 29 þingmenn á móti 34 skuli búa við þau örlög að leggja fram frumvörp sem fá ekki afgreiðslu hér í þinginu. Ég vil nú ekki ætla þeim þingmönnum það að menn leggi bara fram frumvörp til þess að málið fái einhverja athygli sem þeir fjalla um í viðkomandi þingskjali. Þvert á móti. Við hljótum að vilja koma að þeim málum sem við leggjum hér fram til endanlegrar afgreiðslu.

Mín vinsamlegu tilmæli til hæstv. ráðherra eru því þau að við tökum hér upp ný vinnubrögð því að við þurfum á öllum styrk þingsins að halda við þær aðstæður sem nú eru uppi og við þurfum að standa mun betur saman en verið hefur. Þess vegna mundi ég halda að ef verklag ríkisstjórnarinnar hvað varðar tillögur frá stjórnarandstöðunni mundi breytast þá væri það verulegur áfangi í þá átt að við færum að standa betur saman í þessu.