138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[17:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég gæti svarað hv. þm. í löngu máli um hugleiðingar mínar í þessum efnum. Ég hef margoft velt þessu fyrir mér og rætt þetta. Ég hef helst hallast að því að við eigum að gera ákveðnar skipulagsbreytingar hér í störfum þingsins, sem feli það í sér að mál lifi jafnvel milli þinga og vakni upp á nýju þingi á þeim stað sem það var statt áður, eða að a.m.k. lifi það tvö þing eftir að það hefur verið flutt. Þannig að hafi málið komist til nefndar en dagað uppi þar að vori eða hausti ef þingi lýkur þá, þá sé það statt á sama stað á nýju þingi árið á eftir og þá hefði ég talið að ætti að vera áskilnaður um það að viðkomandi þingnefnd skuli gera þinginu grein fyrir afgreiðslu sinni á málinu, annaðhvort með rökstuddum hætti, það getur verið á því formi að leggja til að ekki sé aðhafst frekar, það getur verið á því formi að málið sé samþykkt eða afgreitt, eða það getur verið á því formi að leggja til að málið sé fellt, þannig að það fáist botn í málið. Þegar maður hugsar þetta betur þá er það í raun og veru vanvirðing við starfið hér og pappírssóun og lítil tillitssemi við umhverfið að endurprenta og endurprenta hér mál sem aldrei fá neina almennilega meðferð.

Ég hef flutt af og til í 25 ár frumvarp sem ég lagði mikla vinnu í að semja á fyrstu vetrum mínum á þingi, um kjarnorkufriðlýsingu Íslands. Ég hef stundum náð að safna á það flutningsmönnum úr öllum þingflokkum, nema einum. Mér hefur aldrei tekist neitt með einn ónefndan þingflokk, sem ég held að sé ekki hér í salnum núna og hefur ekki tekið þátt í þessari umræðu, en þannig hefur aftur og aftur glitt í þingmeirihluta fyrir þessu frumvarpi en það hefur aldrei fengið afgreiðslu. Auðvitað er það svolítið dapurt að grundvallarmál af slíku tagi fáist ekki á endanum einhvern tímann afgreitt í formi afgreiðslu. Menn grípa þá jafnvel til þess ráðs að flytja efni slíkra þingmála sem breytingartillögur við einhver önnur mál til þess að knýja fram um þau atkvæðagreiðslu, (Forseti hringir.) sem er auðvitað hjáleið í þingskapalegu tilliti og ætti ekki að þurfa að nota.