138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[17:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við hæstv. ráðherra erum nokkuð sammála þegar kemur að þessu og það er gleðilegt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að öðru af því hann talar um skipulagsbreytingar og breytingu á vinnulagi hér innan þingsins. Á sínum tíma var ákveðin hefð fyrir því að stjórnarandstaðan hefði formennsku í nefndum. Hún var rofin áður en ég settist hér á Alþingi en ég man eftir því þegar ég sat hér í meiri hluta hversu gríðarlegt álag það var á þingmenn stjórnarflokkanna að sitja í öllum þessum nefndum og gegna þar formennsku á meðan stjórnarandstaðan fékk eðlilega hlutfallslega miklu færri nefndir og var ekki í fyrirsvari fyrir eina einustu nefnd. Nú er það svo að það er margt af ágætu fólki í stjórnarandstöðunni hér á vettvangi þingsins og fólk sem hefur margt gott fram að færa og ágætisverkstjórn að mínu viti, svo við tölum nú um verkstjórn, og ég held að það gæti leitt til skilvirkari og betri vinnubragða hér á þinginu ef stjórnarliðar mundu leita í meira mæli til stjórnarandstöðunnar þegar kemur að verkaskiptingu. Ég man eftir því þegar vinstri grænir voru í stjórnarandstöðu að einstaka þingmenn þeirra reifuðu það héðan úr ræðustól Alþingis, mig minnir að það hafi verið hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem reifaði það, að það væri óeðlilegt að 34 manna meiri hluti á móti 29 manna minni hluta tæki að sér fyrirsvar í öllum nefndum þingsins og það væri í raun og veru ekki beint lýðræðislegt ef maður hugsaði það með þeim hætti. Ég held að við gætum náð mun meiri árangri í störfum þingsins og létt þar af leiðandi álagi á þingmenn stjórnarliðsins með því að stjórnarandstaðan tæki meiri og virkari þátt í ábyrgðarstörfum innan þingsins. Það væri gaman að heyra frá hæstv. ráðherra sem er þingreyndur maður hvaða afstöðu hann hefur til þessara hugmynda.