138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[18:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með þingsályktunartillöguna sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flytur hér ásamt fleiri ágætum hv. þingmönnum. Ég tel að þessi ályktun sé vel unnin, mikil vinna lögð í hana og mikið magn upplýsinga liggur fyrir í ágætri greinargerð með henni. Sú staðreynd að árið 2016 megi gera ráð fyrir því að um milljón ferðamenn sæki landið heim segir okkur það að árið 2016 eða eftir sjö ár verður ferðaþjónustan mögulega orðin stærsta íslenska atvinnugreinin þegar kemur að öflun á gjaldeyri. Hafi íslenskt samfélag einhvern tíma verið í þörf fyrir það að afla gjaldeyris er það núna í ljósi þess að við erum að skuldsetja okkur mikið í erlendri mynt og þurfum því á miklum gjaldeyri að halda.

Hv. þingmaður og meðflutningsmenn hennar komu aðeins inn á tekjuöflun. Í máli hv. þingmanns kom fram að 500 þúsund erlendir ferðamenn koma til landsins í ár. Ef við gerðum ráð fyrir því að þessir ferðamenn borguðu einhvers konar gjald þegar þeir kæmu til landsins, segjum 5 þúsund kr. hver — sem er kannski ekki há upphæð í ljósi gengis íslensku krónunnar — gæti það skilað ríkissjóði 2,5 milljörðum kr. á ári. Við erum hér á þinginu og í fjárlagagerð að reyna að finna einhverja nýja tekjustofna og mér finnst ansi freistandi að reyna að seilast eitthvað í þessa vasa.

Ég hef svo sem ekki neina útfærðar tillögur en mér er tjáð að þegar ferðamenn komi til Kína greiði þeir gjald fyrir að koma inn í landið og jafnvel fyrir að fara út úr landinu. Það skilar Kínverjum miklum fjármunum þannig að ég vil skoða þetta í ljósi þess að ef áætlanir ganga eftir og milljón ferðamenn heimsækja landið 2016 og hver og einn þeirra greiddi nokkra þúsundkalla, tökum tíu þúsund kall sem dæmi, væru það 10 milljarðar inn í ríkissjóð sem gæti þar af leiðandi stutt við íslenska ferðaþjónustu með betri aðstöðu fyrir ferðamenn. Við vitum um marga ferðamannastaði og margar náttúruperlur vítt og breitt um landið þar sem aðstaðan er því miður til skammar og ekki ásættanleg. Ef við ætlum að byggja þessa staði upp verðum við að finna fjármuni til þess og ég tel að þetta sé eitthvað sem við ættum að skoða í ljósi þess hversu gríðarlega hröð þróunin er.

Einhvern tíma hefði þurft að segja manni það tvisvar að ferðaþjónustan mundi á árinu 2016, ef áætlanir ganga eftir, skila meiri gjaldeyristekjum en sjávarútvegur og stóriðja, þar sem við höfum byggt gríðarlega mikið upp á undangengnum árum og erum að mínu viti með einn best rekna sjávarútveg í hinni víðu veröld og búum við miklar auðlindir hvað það snertir.

Ég tel að þessi tillaga, sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir lagði fram, sýni mikla framsýni. Af því að við vorum að ræða hér aðeins um störfin á vettvangi Alþingis og nú vill svo til að 1. flutningsmaður þessa máls kemur úr stjórnarandstöðu, þá vona ég að þetta góða mál muni ekki gjalda fyrir það. Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra tala fyrir breyttu verklagi hvað það varðar þannig að ég vona að þetta mál nái fram að ganga og við afgreiðum þessa þingsályktun því að það eru ekkert mörg ár í það að inn í landið streymi milljón ferðamenn og hvernig ætlum við að taka á móti þeim og með hvaða hætti? Að sjálfsögðu þurfa að liggja fyrir áætlanir í þeim efnum og ég tel þess vegna að um löngu tímabært mál sé að ræða sem sýni ákveðna framsýni og ég sé að margir ágætir þingmenn eru flutningsmenn að þessari þingsályktun. Því miður er ég ekki einn af þeim en lýsi því hér með yfir að ég styð þetta mál mjög eindregið og finnst að við horfum með ákveðinni framsýni fram á veginn hvað þessi mál varðar.

Við Íslendingar þyrftum kannski að læra það að hætta að hugsa einungis um það sem er að gerast á næsta ári eða þarnæsta ári og horfa lengra fram á veginn. Það á við um þennan mikilvæga málaflokk sem skapar í dag gríðarlegar gjaldeyristekjur, þúsundir starfa, og allt bendir til þess að störfum í ferðaþjónustu eigi eftir að fjölga gríðarlega ásamt þeim tekjumöguleikum sem ég sé fyrir hönd ríkissjóðs í því að hér munu innan nokkurra ára að öllu óbreyttu koma milljón ferðamenn. Öfundsverð tækifæri felast í því og hafi íslenskur ríkissjóður einhvern tíma þurft að auka við tekjustofna sína er það á tímum sem þessum. Þess vegna væri gagnlegt að heyra frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, sem er 1. flutningsmaður þessa máls, hvaða hug hv. þingmaður hafi til gjaldtöku sem þessarar því að við þurfum að afla okkur tekna og síðast en ekki síst gjaldeyris. Þegar maður sér spár um hvernig þessi atvinnugrein, ferðamannaiðnaðurinn, mun þróast á næstu árum eru þær bjartar, a.m.k. hvað þann hluta þjóðarbúsins varðar. Því blasa tækifæri við okkur víða, í ferðaþjónustunni og fleiri atvinnugreinum, en við þurfum að vita hvert við stefnum, hvernig við ætlum að móta þetta og þessi þingsályktunartillaga er mikilvæg í þeim efnum.

Ég hvet til þess að tillagan verði samþykkt hið fyrsta þannig að aðilar í ferðaþjónustu og stjórnvöld geti í sameiningu sest yfir málaflokkinn og mótað skynsamlega stefnu til framtíðar hvernig við ætlum að taka á móti ferðafólki, með hvaða hætti, og síðast en ekki síst hvort þarna séu kannski vannýtt tækifæri til þess að auka við tekjustofna ríkissjóðs, sem skuldar því miður allt of mikið í dag. Vonandi mun rætast úr því með öflugri áætlunargerð og þess vegna held ég að sama hvar í flokki við stöndum getum við verið sammála um að samþykkja þessa þingsályktunartillögu þannig að þessi vinna fari af stað hið fyrsta.