138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir mjög jákvæða umræðu um þessa tillögu og fagna því hvað þingmenn hafa sett sig vel inn í hana og tekið jákvætt í að hún fái afgreiðslu. Sterklega er mælt með því af hálfu stjórnarliða og ég fagna því mjög. Það er frekar óvenjulegt en ég fagna því mjög.

Áðan var sagt að mikil framsýni fælist í þessari tillögu. Jú, það má svo sem færa rök fyrir því en ég er frekar á þeirri skoðun að við hefðum átt að vera búin að þessu fyrir löngu síðan. Við erum grípum svolítið seint í þetta mál af því að ef við hefðum gert það fyrr tel ég að við hefðum haft enn þá meiri möguleika á að standa vel að málum. Þá væri málum kannski þannig háttað núna að við værum að endurskoða fyrirliggjandi áætlanir. Það er um að gera að koma þessu sem fyrst í gagnið. Auðvitað þyrfti að gera þetta líka fyrir fjölsótta staði á láglendi en ekki bara miðhálendið en tillagan tekur til miðhálendisins vegna þess að ég og flutningsmenn teljum að það sé brýnast að byrja þar. Þar er svo mikil sérstaða og hana þarf að passa upp á.

Miðhálendið er líka vel skilgreint í dag og með greinargerðinni fylgir kort af því. Ákveðin lína er í dag skilgreind sem miðhálendi þannig að það er mjög auðvelt að hefja verkið, það er rammi utan um það.

Það er síðan rétt sem hefur komið fram hjá ýmsum talsmönnum í þessari umræðu, varðandi hópa sem nýta sér miðhálendið. Þetta eru nokkrir hópar og þeir eiga allir sinn rétt. Hv. þm. Róbert Marshall kom sérstaklega inn á einn hóp sem eru mótorhjólamenn. Ég hef skoðað þessi mál í mörg ár og verið í samskiptum við m.a. jeppamennina í 4X4, sem ég veit að hv. þingmaður hefur einnig gert, og mótorhjólamenn bæði í Slóðavinum og í Vík. Í mínum huga er ljóst að þessir hópar eiga allir rétt á sér, þeir eiga að geta notið sín í útivistinni og þeir eiga ekki að þurfa að lenda í þeim átökum sem þeir því miður hafa stundum lent í. Ég tel að það sé vegna þess að við höfum ekki skipulagt þessi mál nógu vel og ekki ákveðið hvar þessir hópar eigi að vera.

Nú er svo komið að menn hafa verið að vinna í slóðamálum og mér skilst að sum sveitarfélög séu meira eða minna að loka öllum slóðum, ekki af því að það sé umhverfismál eða að það þurfi að gera það heldur af því að sveitarfélögin eru hrædd um að þau sitji uppi með kostnað við að halda þeim opnum. Þessi mál þarf að skoða miklu betur, virðulegi forseti.

Hér hefur verið spurt hvort ekki sé hægt að vinna þetta hraðar. Bæði hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir og hv. þm. Róbert Marshall spurðu um það. Það má vel vera en nú eru skipulagsmál á hendi sveitarfélaga og þau eru allmörg á miðhálendinu. Ég þekki af eigin raun að slíkt ferli er ansi þungt. Ég tel að sveitarfélögin þurfi að koma að talsverðu leyti að þessari vinnu. Ég vildi að það væri hægt að vinna þetta hraðar en ég er ekki viss um að það sé gerlegt vegna þess hvað þetta mál getur verið flókið. Hagsmunir hljóta að takast á í slíkri áætlanagerð. Menn þurfa að ræða saman og komast að niðurstöðu en við verðum samt að hefja þetta verk sem allra, allra fyrst til að geta komið áætluninni í gagnið helst fyrir árið 2015.

Einnig var nefnt að það þyrfti að teygja úr ferðamannatímabilinu. Það er hárrétt og ég held að svona áætlanagerð geti hjálpað til við það. Mjög margt er vannýtt í ferðaþjónustunni í dag, þ.e. þessi svokallaði infrastrúktúr, hótelgisting er t.d. mjög vannýtt á veturna. Þar er mikil og góð nýting á sumrin en allt of lítil á veturna. Þetta er aðeins að skána en það þarf að gera svo miklu meira til þess að nýta uppbygginguna allt árið.

Hér var líka minnst á laugar, það gerði hv. þm. Magnús Orri Schram. Í því sambandi vil ég benda á að í Bláa lónið koma — ég hef fengið upplýsingar þar um það — upp undir 3.400 manns á dag yfir háannatímann og það kostar 4.000 kr. inn. Þetta er ótrúlegur fjöldi. Reyndar tekur það svæði mjög mikinn þunga en við verðum að skipuleggja okkur þannig að við getum almennt dreift fólki betur yfir landið.

Hv. þm. Magnús Orri Schram kom einnig inn á löggildingu leiðsögumanna. Ég hef skoðað það mál svolítið og þar er svolítið þungt fyrir fæti. Sérstök nefnd vinnur fyrir Félag íslenskra leiðsögumanna í því máli en ég finn að uppi eru sjónarmið á borð við: Leiðsögumenn eru ekki löggiltir í nágrannaríkjum okkar, þjónustutilskipun Evrópusambandsins er að koma og þá á allt að flæða vel á milli landa, öll þjónusta o.s.frv. Ýmsir eru ekki á því að það þurfi að taka á þessum málum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það verði að skoða þetta mjög vel. Hingað koma margir erlendir leiðsögumenn sem ég held að margir hverjir þekki ósköp lítið til lands og þjóðar og það væri eðlilegra að Íslendingar mundu sinna þessu. Ég velti fyrir mér hvort það sé hægt með einhverju móti að t.d. skilyrða það þannig að íslenskir leiðsögumenn sinni t.d. þjóðgörðunum, að sýna fólki þjóðgarðana og hugsanlega önnur svæði. Þetta er talsvert flókið mál en að mínu mati þarf að skoða það mjög vel.

Einnig var minnst á tekjuöflunina og ég vildi nota nokkrar mínútur í það mál. Í stjórnarsáttmálanum stendur, með leyfi forseta:

„Kannaður verði grundvöllur þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem renni til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna og til eflingar ferðaþjónustu.“

Virðulegi forseti. Hér er talað um að það eigi að taka gjöld, það á að byggja upp þjóðgarða og aðra fjölsótta ferðamannastaði og efla ferðaþjónustu. Að mínu mati er ekki hægt að fara í uppbyggingu almennt á fjölsóttum stöðum nema gera áætlunina fyrst. Það er grundvallaratriði, það þarf að gera áætlunina fyrst, svo þarf að byggja upp á stöðunum. Auðvitað þurfa einhverjir staðir að fá fjármagn strax af því að það er aðkallandi en almennt þarf að gera áætlunina fyrst og síðan byggja upp í samræmi við hana. Þegar nefndin sem Ólafur Örn Haraldsson, fyrrum hv. þingmaður, veitir forstöðu er búin að skila af sér leiðinni sem á að fara og búið er að samþykkja væntanlega einhverja löggjöf um það tel ég að fjármagnið eigi að hluta til að fara strax í þessa landnýtingaráætlun. Þarna er kominn stofn til þess að standa undir einmitt þessari áætlun og að auki til að setja þar sem eldarnir brenna í dag, þar sem við vitum að strax þarf að fara í gang meiri uppbygging.

Hægt er að fara ýmsar leiðir. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi að taka 5.000 kr. af hverjum ferðamanni sem kæmi inn í landið. Þetta er frekar há tala, menn hafa frekar verið að gæla við 500 kr. á hvern ferðamann, en þetta er eitthvað sem þarf að skoða. Það er rétt að ef ferðamenn koma til Kína er tekið svokallað „construction fee“, þ.e. uppbyggingarfé, sem ég held að eigi að fara til að byggja upp ólympíuleika. Fjölmörg ríki taka svona fé. Það er líka hægt að taka svokallað gistináttagjald á hverja gistinótt og það er gert í mjög mörgum ríkjum. Ég nefni t.d. eyjuna Mallorca, þar er tekið gistináttagjald sem fer beint í að hreinsa skolp. Svona gjöld eru tekin mjög víða en hér hefur ferðaþjónustan reyndar verið á móti þessum tekjuöflunarleiðum.

Líka er hægt að taka gjald á staðnum, bara rukka við hlið, rukka að Geysi, Gullfossi o.s.frv. Ég var á sínum tíma krafin um það af þáverandi. hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, að útvega að mig minnir 15 millj. kr. í svona gjald á staðnum. Þetta var skoðað í nefnd hjá mér og við komumst að því að þriðjungur af gjaldinu færi beint í sjálfa innheimtuna og þetta borgaði sig ekki á þeim tíma. Ég hef virkilegar efasemdir um þá aðferð en það er hægt að taka gjald af hverjum flugmiða eða reyna aðra slíka leið.

Niðurstaða mín, virðulegur forseti, er þessi og ég heyri að hv. þingmenn eru sammála: Reynum að samþykkja þetta mál sem allra fyrst, komum því í gagnið, notum hluta af fjármagninu sem mun koma í gegnum umhverfisgjaldið sem ríkisstjórnin ætlar að setja á og verum svolítið hnarreist þegar við lítum til framtíðar varðandi ferðaþjónustuna. Þetta er geysilega vaxandi atvinnugrein, margt mjög skemmtilegt er að gerast í þessum geira og við höfum alla burði til þess að verða glæsilegt ferðamannaland í framtíðinni án þess að skemma landið í leiðinni heldur einmitt til þess að afla okkur meiri tekna og sýna umheiminum hvað þetta land er fallegt og flott.

Ég held að það sé eðlilegast að þetta mál gangi til iðnaðarnefndar af því að þar eru ferðamálin vistuð en ég tel nauðsynlegt að (Forseti hringir.) iðnaðarnefnd fái umsögn frá umhverfisnefnd af því að hugmyndafræðin gengur verulega út á að passa líka upp á umhverfið í leiðinni.