138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ákvað að koma upp undir liðnum um störf þingsins og óskaði eftir að ræða við formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Atla Gíslason, um stöðu garðyrkjunnar, ekki síst í ljósi þess að á síðustu vikum hefur það komið sífellt betur og betur í ljós að ekkert gerist hjá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum í að koma garðyrkjunni til aðstoðar þrátt fyrir stöðugar yfirlýsingar um að málið sé í nefnd og nefndum og verið sé að skoða þetta og jafnframt, og ég held að ég geti fullyrt það fyrir hönd hv. þingmanns, formanns landbúnaðarnefndar, að hann sé mér sammála um að nauðsynlegt sé að gera eitthvað í þessum málum.

Staðan er einfaldlega þannig að frá því við niðurskurð á fjárlögum fyrir árið 2009 í vetur og tengdar aðgerðir hækkaði kostnaður garðyrkjunnar um rúmlega 30% og hefur orðið til þess að menn hafa varla getað staðið undir því að lýsa gróðurhúsin eins og verið hefur. Þarna er um verulega mörg störf að ræða, einungis í uppsveitunum í Árnessýslu gætu um 120 störf tapast. Eitt megavatt í rósaframleiðslu getur skapað um 10 störf, og 18 störf í sambandi við tómata. Það er skortur á tómötum í landinu. Meira er flutt inn. Við eyðum gjaldeyri umfram það sem við þurfum og það sem er merkilegast er að orkufyrirtækin virðast með þessum hætti fá minni tekjur því að samdráttur hjá garðyrkjumönnum síðustu 6–8 mánuðina hefur verið um 17% og þeir hafa keypt minni raforku, fyrir sem sagt lægri upphæð en þeir ella gerðu. Það virðast allir tapa á þessu. Þetta er svona sambærilegt og við skattstefnu ríkisstjórnarinnar, ef skattarnir verða of háir fara fyrirtækin á hausinn og borga enga skatta, ef skattarnir eru hóflegir og eðlilegir koma meiri tekjur í ríkissjóð og atvinnulífið eflist.

Því langar mig að spyrja hv. formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Atla Gíslason: Hvar eru ávextirnir af vinnu nefndanna í kringum garðyrkjuna? (Forseti hringir.)