138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:39]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þm. Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, komast frekar seinvaxinn frá umræðunni áðan og ég hugsa að hann hefði viljað brydda upp á öðrum atriðum. Það gengur ekki að láta garðyrkjuna reka á reiðanum eins og gert er. Garðyrkjan skapar 900 störf í landinu. Bara tekjur af rafmagni eru um 700 millj. kr. Garðyrkjan borgar meira rafmagn en borgað er í alla ljósastaura landsins. Með því að koma ekki til móts við garðyrkjuna í stöðunni sem nú er, og full ástæða er til að gera, fækkar störfum um 100–200. Orkuverin tapa á því, Rarik tapar á því og aðrir sem selja rafmagn. Þess vegna verður að bregðast við og hv. þm. Atli Gíslason getur ekki sagt að aðgerðirnar komi bráðum. Það er að koma vetur og maður setur ekki niður kartöflur í frosti. (Gripið fram í: Það er alltaf sumar …)

Til að mynda eitt af því sem liggur fyrir hjá garðyrkjunni núna er eiginlega að hætta að rækta agúrkur, íslenskar agúrkur, þær bestu í heiminum. Það munar 300 tonnum af agúrkum, allt þinghúsið mundi rúma um 300 tonn af agúrkum. Það er spurning um að horfast í augu við möguleikana, horfast í augu við að vera ekki með verkfælni heldur leita eftir verksviti, reynslu og þori. Þess vegna þurfa stjórnvöld núna að taka á því eins og menn, og ég treysti hv. þm. Atla Gíslasyni alveg til þess en ég vil að hann staðfesti að það verði gert án þess að segja: Þetta kemur bráðum. Það gengur ekki. Það verður að undirstrika að við ætlum okkur að styðja við möguleikana í landinu. Garðyrkjan með 1.000 störf er eins og tvö álver. Það er oft miðað við það en 1.000 störf skipta miklu máli, gríðarmiklu máli, ekki síst úti á landsbyggðinni.