138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:41]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vel við hæfi að taka þessa umræðu á þinginu í dag þar sem íslenskir garðyrkjubændur eru að vekja athygli á málstað sínum hér fyrir utan þinghúsið. Það er ágætt að hafa í huga að hér birtist mjög þverpólitískur stuðningur við þá hollustugrein og gjaldeyrissparandi stóriðju sem græna stóriðjan virkilega er og garðyrkjan er orðin. Á þeim 20 árum sem hún hefur verið heilsársframleiðsla hefur hún vaxið alveg gríðarlega.

Núna í fyrsta sinn sjá bændur fram á samdrátt í þessum helsta vaxtarsprota landbúnaðarins, sem garðyrkjan er, og það er út af því að ekki hefur tekist þrátt fyrir áralangra baráttu margra innan þeirrar greinar, og utan, að fá garðyrkjubændur skilgreinda sem stórnotendur. Í því liggur málið allt saman. Það er mjög augljós og almennur stuðningur við það að garðyrkjan geti gengið að lægra verði á raforku en hún gerir í dag og hún þarf að gera það. Þar skiptir öllu máli að tekinn verði upp sérstakur garðyrkjutaxti þar sem greinin er skilgreind sem stórnotendur og gefið færi á því að selja þessari grein ódýrara rafmagn.

Þess má geta, af því að menn eru að bera þetta saman við aðrar greinar, að eitt útilokar að sjálfsögðu ekki annað og það er ekki skortur á orku sem kemur í veg fyrir að verð á raforku til garðyrkju sé lækkað. Það er ekki skortur á orku, það þarf pólitíska ákvörðun og pólitískan vilja til að ákveða að garðyrkjutaxti verði tekinn upp og garðyrkjubændur skilgreindir sem stórnotendur. Það er ekki hægt að segja að það sé skortur á orku eða neinu öðru slíku. Það er eingöngu pólitísk ákvörðun að gera svo.

Það má geta þess til gamans að hvert starf sem skapast í stóriðju skapast fyrir sömu peningaupphæð 6–8 störf í garðyrkju. Það er engin ein grein í landinu sem skapar fleiri störf fyrir minni fjármuni og þess vegna á að hlúa að þessari grein sérstaklega. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: Kálver, ekki álver.) [Hlátur í þingsal.]