138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir mál hans hér áðan. Það er orðið tímabært að vekja athygli á rafmagnsmálum garðyrkjubænda. Nú hafa stjórnarliðar talað hér og svarað fyrir þetta og það er eins og gerist ætíð, það er eins og þeir séu ekki sjálfir í ríkisstjórn. Samfylkingin hefur setið í ríkisstjórn í tæp þrjú ár, Vinstri grænir í tæpt ár og þeir tala hér alltaf eins og stjórnarandstæðingar.

Þið eruð með það vald í ykkar höndum að gera eitthvað í málefnum garðyrkjunnar. Það var á stefnuskrá Vinstri grænna fyrir kosningar að hér yrði gerðar róttækar breytingar á rafmagnsmálum garðyrkjubænda — og það er ekkert búið að gera. Þið verðið að bera ábyrgðina á þessu atriði, aðilar þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn. Það er mjög óábyrgt að koma hér og tala eins og það sé jafnvel á ábyrgð stjórnarandstöðunnar að hér sé ekkert gert.

Það virðist vera stefna ríkisstjórnarinnar að keyra allt niður. Í ræðum hefur komið fram að störf eru að tapast og það á að fara að flytja inn grænmeti og blóm sem aldrei fyrr út af því að ríkisstjórnin býr þannig um hnútana að það er verið að keyra þessa iðngrein niður á frost. Þetta er náttúrlega alveg hreint með ólíkindum, en við vitum að flokkarnir sem að ríkisstjórninni standa eru ólíkir. Samfylkingin vill leggja niður allan landbúnað, sama hvort það er grænmetisræktun, blómaræktun eða venjulegur búskapur. (Gripið fram í: Talaðu …) Vinstri grænir hafa greinilega ekki þrek í það að standa í lappirnar og framfylgja sinni stefnuskrá, ekki í málefnum garðyrkjunnar, ekki ESB-málinu og ekki Icesave-málinu.

Frú forseti. Þessari ríkisstjórn verður allt til ógæfu.