138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[14:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni um stöðu garðyrkjunnar og þá merkilegu stöðu að þrátt fyrir greinilega þverpólitíska sátt um að hér þurfi að gera ýmislegt varðandi rafmagnskostnað garðyrkjunnar gerist ekki neitt. Kannski er þá aðalspurningin sem við eigum að spyrja okkur eftir þessa umræðu: Af hverju gerist ekki neitt? Er það vegna þess að ekki er til þessi pólitíski vilji eða styrkur sem þarf til að gera þetta?

Ég hef í hyggju að leggja fram þingsályktunartillögu um að ef ekki er hægt að koma með neinum skynsamlegum leiðum að gagni verði hægt að grípa til þeirra sömu aðgerða og menn gerðu áður, einhvers konar niðurgreiðslu á meðan garðyrkjan þarf að búa við þetta. Það er ekki hægt að horfa upp á það að hún leggist hér af eða loki eins og hér hefur komið fram. Það eru um 120 eða 150 störf sem gætu verið í húfi í vetur fyrir utan þann gjaldeyri sem við þurfum að punga út til að kaupa vörur sem eru ekki nærri eins góðar og þær sem við framleiðum innan lands.

Hér var nefnt Holland og útflutningur þar. Af því að við erum alltaf að tala um orkuna okkar, hversu gölluð hún er á Íslandi og hættuleg, vil ég nefna að í Hollandi er verið að byggja orkuver sem er tvöföld stærð Kárahnjúka og það brennir kolum, m.a. væntanlega til að framleiða garðyrkjuvörur sem síðan er útflutningsvara um allan heim. Skyldi ekki vera betra að framleiða garðyrkjuvörur á Íslandi úr endurnýjanlegum orkugjafa og flytja um allan heim? Í pípum Landsvirkjunar eru til í það minnsta 50 megavött. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Í það minnsta. (Gripið fram í: Það er nóg til.) Nú um þessar mundir. Garðyrkjubændur voru áðan hér úti með upplýsingar um að með þessum 50 megavöttum væri hægt að framleiða um 50 milljón rósir. Það eru ansi mörg störf. Með þeim væri líka hægt að framleiða um 15.000 tonn af tómötum og það eru tugir ef ekki hundruð starfa. (Gripið fram í.) Af hverjum í ósköpunum gerum við ekki þetta í staðinn fyrir að karpa um að engin orka sé til eða hvort hún sé það slæm (Forseti hringir.) að við eigum ekki að koma nálægt nokkurri orkuvinnslu í landinu? (Gripið fram í.)