138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur kærlega fyrir það tækifæri að fá að ræða heilbrigðisþjónustuna og forgangsröðun í henni sem er mjög brýn, ekki síst á þeim tímum sem við lifum.

Ég minni á að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að heilbrigðisþjónustan verði tekin til endurskoðunar með heildstæðri stefnumörkun í þeim tilgangi að draga úr kostnaði við hana og nýta fjármuni skynsamlega. Það er lögð áhersla á að leiða saman heilbrigðisstarfsmenn, sjúklingasamtök og sérfræðinga til að skipuleggja og ná sátt um örugga heilbrigðisþjónustu um land allt. Í samræmi við þessi fyrirheit hefur á undanförnum mánuðum verið haft víðtækt samráð við fjölda aðila um að hrinda í framkvæmd fyrrgreindum stefnumiðum.

Ég ætla ekki að þreyta menn á því að lesa meira úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um heilbrigðismál en þar er af ýmsu að taka. Ég ætla aðeins að minna á að meginmarkmiðin eru jöfnuður, gott aðgengi og góð þjónusta, öryggi og hagkvæmni en þar er einnig punktur um að heilsugæslan skuli í þessu samhengi sett í öndvegi sem fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu.

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði áðan, ekki verður komist hjá því að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni líkt og í öðrum opinberum rekstri, ekki síst á þessum krepputímum. Við skulum ekki ímynda okkur að ekki verði eitthvað dregið úr heilbrigðisþjónustu á komandi árum. Spurningin er bara hvar og hvernig. Það kann að vera að biðlistar lengist, það kann að vera að ekki verði eins auðvelt að komast til sérfræðings en við þurfum að stýra þessu þannig að öryggið sé í öndvegi og að niðurskurður og aðhald bitni ekki á þeim sem minnst mega sín. Ég minni á að það er skýr forgangsröðun í áætlun ríkisstjórnarinnar um það hvernig taka skuli niður fjárlagahallann þar sem gerð er 5% aðlögunarkrafa á heilbrigðisþjónustu á næsta ári, 7% á menntamál og 10% á stjórnsýsluna, þar með talið stjórnsýsluna í heilbrigðisþjónustunni.

Leiðarljósin við þessar aðgerðir eru líka skýr, þ.e. að verja störfin, verja laun sem eru undir 400 þús. kr. og lækka hæstu laun, þ.e. að ná fram launajöfnuði. Það er ærið verkefni í heilbrigðisþjónustunni þar sem launamunur hefur verið gríðarlegur og þar hefur enn ekki náðst tilætlaður árangur.

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði um stöðu kragaverkefnisins, hversu langt stjórnvöld væru komin í forgangsröðun á því svæði. Eins og menn muna var í upphafi þessa árs lagt upp með gríðarlega mikla uppstokkun á þessum svokölluðu kragasjúkrahúsum og tengingu þeirrar þjónustu sem þar er veitt við þjónustu á Landspítalanum. Það er miður að þær tillögur sem kenndar eru við Huldu Gunnlaugsdóttur, þáverandi forstjóra Landspítalans, frá 22. september náðu ekki fram áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram 1. október sl. Þær komu þess vegna ekki inn í fjárlagafrumvarpið og það er enn verið að vinna með þær. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir á grunni þeirra en faghópar hafa verið að störfum sem hafa verið að meta ábata og kostnað af þeim tillögum sem þar er lagt upp með og talið er að gætu skilað 500–600 millj. kr. í hagræðingu fyrir kerfið í heild. Ákvarðanir eða niðurstöður munu liggja fyrir á allra næstu dögum og þær munu byggja á góðum gögnum. Ég legg áherslu á að tölur séu ábyrgar og sannreyndar þannig að aðgerðir skili tilætluðum árangri hvað fjármuni varðar. Markmiðið er sem fyrr að nýta mannafla og fjármuni betur og með sem minnstri skerðingu á þjónustu, en jafnframt hef ég lagt áherslu á að horft skuli til atvinnuástands á viðkomandi svæðum.

Það er margt annað en tillögur sem kenndar eru við þessa nefnd Huldu Gunnlaugsdóttur frá 22. september sem er til skoðunar varðandi sjúkrahúsin í kraganum. Ég vil nefna sérstaklega hugmyndir um að flytja fleiri legusjúklinga út af Landspítalanum á kragasjúkrahúsin og einnig að líta til nýrra hugmynda fæðingar- og kvensjúkdómalækna um heildarskipulag fæðingarþjónustu á þessu svæði. Tillögur um breytingar á henni hafa vægast sagt verið mjög umdeildar.

Að lokum, frú forseti, tími minn er að renna út, legg ég áherslu á það sem segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um eflingu heilsugæslu og ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður sagði, ég tel mikilvægt að skoða heilbrigðisþjónustuna og tilvísanakerfið í nágrannalöndunum, þá einkum danska kerfið. Ég vek athygli á því að það mun taka kannski 2–4 ár að ná fram slíkum breytingum (Forseti hringir.) en ég tel þær mjög mikils virði og mun setja þá vinnu af stað.