138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:19]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Já, það þarf að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni eins og öðrum þáttum ríkisrekstrarins. Mig langar til að ganga út frá fjórum atriðum helst í þessari umræðu og þau byggja öll á því að til þess að fara í slíkar skipulagsbreytingar þarf að líta á landið sem eina heild, landið sem eitt þjónustusvæði fyrir 320.000 íbúa.

Hvernig gerum við það? Við gerum það m.a. með því að fylgja eftir tillögum sem eru kenndar við Huldu Gunnlaugsdóttur sem er auðvitað, alveg eins og hér hefur verið bent á, í raun það verkefni sem hófst í ráðherratíð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Það er með þetta verkefni eins og önnur í ríkisrekstrinum um þessar mundir að það skiptir kannski ekki öllu hverjir eru ráðherrar, verkefnin fara ekkert og það þarf að leysa þau.

Hvernig gerum við það? Það þarf að endurskipuleggja starfsemi kragasjúkrahúsanna í kringum LSH þannig að þau nýtist saman rekstrarlega og með öðrum hætti. Það þarf að greina það eftir verkefnum eins og segir í skýrslu Huldu Gunnlaugsdóttur. Það þarf að styrkja Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem mótvægi á landsbyggðinni við LSH og að sjálfsögðu þarf að styrkja heilsugæsluna og þær forvarnir sem þar eiga sér stað. Þar þarf líka að ganga út frá verkefnum heilsugæslunnar en ekki öðrum hlutum, t.d. um heimahjúkrun. Og jú, það þarf líka að byggja nýjan spítala en hann verður ekki sá sem fyrst var lagt upp með, heldur spítali sem við þurfum að fá þegar búið er að fara í gegnum skipulagsbreytingarnar.

Þetta er það sem við þurfum að gera og ég er þess fullviss að núverandi heilbrigðisráðherra, ríkisstjórn og hv. heilbrigðisnefnd hafa hið pólitíska þrek sem þarf til að gera þessar breytingar af því að til þess að gera þetta þurfum við þverpólitíska samstöðu (Forseti hringir.) og ég hygg að hún sé að myndast.