138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:35]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að það er brýnt að huga að forvörnunum líka. Ég get bara minnt þingheim á að það hefur sparast alveg ótrúlega mikill peningur við það að við höfum náð að minnka reykingar. Sú samstaða náðist hér að lokum að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum og það hefur þegar sparað talsverðar upphæðir.

Það sem mig langar að bregðast við, virðulegur forseti, eru þær yfirlýsingar sem hér komu fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að það væri miður að forgangsröðunartillögurnar hefðu ekki náð inn í umræðuna um fjárlagafrumvarpið þannig að það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra vill gera tillögur Huldu Gunnlaugsdóttur og nefndar hennar að sínum, eða ég túlka það sem svo, og þá bíðum við bara spennt eftir því að fá þær tillögur hér inn með einhverjum hætti í frekari vinnslu og munum þá skoða þær frekar. Það er alveg ljóst að þar eru sparnaðarhugmyndir sem ég tel að gegnumsneitt sé hægt að hrinda í framkvæmd án þess að skerða þjónustu.

Það sem mér fannst kannski merkilegra í þessari umræðu, virðulegur forseti, var hve vel var tekið í þá hugmynd að taka upp þetta danska valfrjálsa stýrikerfi. Ekki einn einasti maður talaði hér gegn því, enginn. Flestir töluðu með því eða sögðu lítið um það. Hæstv. ráðherra sagði að hún vildi skoða danska kerfið og setja af stað vinnu við það og sagði að hún teldi að það gæti tekið 2–4 ár að koma þessu á. Það er frekar bjartsýn spá að mínu mati. Ég held að það gæti tekið lengri tíma, en miðað við þá samstöðu sem ég skynja hér um að fara í svona kerfislæga breytingu sem er nokkuð umfangsmikil má vel vera að okkur takist að koma þessu á hraðar en ég hélt. Það er samt alveg ljóst að það eru hagsmunaaðilar innan heilbrigðisþjónustunnar sem munu sumir hverjir tala gegn þessari breytingu og hafa hagsmuni af því að halda málunum áfram í sama farvegi og þau eru í núna.

Ég fagna því sérstaklega að kannski erum við núna að taka fyrsta skrefið á réttri leið í að breyta kerfinu okkar þannig að við leggjum meiri (Forseti hringir.) áherslu á heilsugæsluna og minni áherslu á algjörlega óheft aðgengi að sérfræðilæknaþjónustu. Við eigum að nýta þjónustuna þar sem hún er hagkvæmust.