138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[14:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsöguna um þetta mál. Að mörgu leyti er hæstv. ráðherra mjög mikil vorkunn að þurfa að sitja í þessu embætti þar sem niðurskurðarkrafa ríkisstjórnarinnar gengur þvert á þann viðkvæma málaflokk sem hún stendur fyrir rekstri á. Þarna eru viðkvæmustu málaflokkarnir raunverulega sem þarf að takast á við, fangelsismál og dómsmál, og við erum að etja við hrun í leiðinni. Í þessu frumvarpi er lagt til að gildistöku héraðssaksóknara verði frestað. Ég harma það mjög því að það hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra að markmiðið með því að setja á stofn embætti héraðssaksóknara var að auka réttaröryggi borgaranna, en því miður virðist þessi ríkisstjórn gera lítið í því að sinna þessum málefnum sem vissulega eru brýn til þess að hér þrífist yfir höfuð það réttarríki sem við viljum búa í.

Þetta er sorglegt, en svo sem ekki við öðru að búast af þessari vinstri stjórn sem nú er við völd. Ég sit í allsherjarnefnd og við fjöllum nánast á hverjum fundi um að skera niður grunnþjónustu hjá þeim sem kannski minnst mega sín og þeim sem ekki mega við því.

Fyrst búið er að gefa út þær skipanir að fresta þessu gildistökuákvæði um héraðssaksóknara einu sinni og nú er lagt til að það verði gert aftur, með dagsetningunni 1. janúar 2012, er þá ekki hreinlegra að fresta þessu gildistökuákvæði ótímabundið en að koma með þetta mál aftur og aftur fyrir þingið og breyta hér ártölum?