138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[14:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir skýr svör. Sá tímapunktur er kannski kominn að við þurfum að fella þetta alveg úr lögunum, því samkvæmt því sem við stöndum frammi fyrir þá er nokkuð skrýtið að hafa ákvæði í lögunum þar sem sífellt er verið að fresta gildistökunni, sérstaklega í ljósi þess að ekki er vilji hjá framkvæmdarvaldinu til að stofnsetja þetta embætti þó að það kosti ekki mikinn pening. Þetta embætti var hugsað þannig að það tæki öll þyngstu málin og það yrði þá jafnræði á milli þeirra. En þar sem tillaga er komin um það í þessum sparnaðartillögum og niðurskurði að frekar ætti að styrkja embætti ríkissaksóknara finnist til þess eitthvert fjármagn, þá styðjum við framsóknarmenn það að sjálfsögðu. En ég bendi aftur á að þetta er nokkuð einkennileg staða sem við þingmenn erum settir í á þessum tímum, þar sem við viljum öll að vel takist til við endurreisnina eftir hrunið, að við erum alltaf, eins og ég hef sagt áður, að gera hér einhverjar lagabætur. Þetta er afar einkennilegt. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er þá ekki eðlilegast að þetta ákvæði verði fellt út úr lögunum og sérstök lög sett um héraðssaksóknara þegar birtir til í efnahagslífi okkar?