138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[15:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst byrja á að segja að mér fannst ræða hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur mjög málefnaleg þar til hún fór í útúrdúrinn. Og þar ætla ég að vera — þó ég sé kannski ekki einn af þeim mönnum sem tekur þetta sérstaklega til sín, en ég staldra þó við það þar sem hún sagði að þingmenn mættu ekki koma hér og leggja eingöngu til að ekki mætti spara en koma svo ekki með tillögur um hvernig ætti þá að auka tekjur og það þyrfti bæði pólitískan kjark, djörfung og þor til þess að takast á við verkefnin og ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það.

Ég held að það sem þarf að gerast í þessu sé að forgangsraða upp á nýtt í samfélaginu. Ég held, og tek alveg heils hugar undir það með hv. þingmönnum sem hafa nefnt það hér, að hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra hafi staðið sig einstaklega vel í þessu og tekið starf sitt mjög alvarlega. Það er ekki hægt að segja um önnur ráðuneyti að þau hafi gert það með þeim hætti, eins og sést í fjárlagafrumvarpinu og eins í fjáraukalögunum. Menn hafa margir hverjir frestað vandamálunum og ekki sýnt það þor og kjark sem hv. þingmaður benti á.

Ég vil hins vegar benda á að við sjálfstæðismenn höfum lagt fram ítarlegar efnahagstillögur sem sýna einmitt að menn eru tilbúnir að skoða alveg nýja vinkla í þessum málum og síðan eigum við eftir að fá að klára að ræða þær, væntanlega í lok vikunnar. En þá langar mig að velta því upp við hv. þingmann — af því að hún segir að þá verði að raða upp á nýtt, ég er mjög efins um það og geri ekkert lítið úr vandamálum stjórnvalda að skera þurfi niður því að við erum með 183 milljarða gat, og ég geri ekkert lítið úr því, enda höfum við sjálfstæðismenn ekki gert ágreining um að skera þurfi niður — hvernig henni finnist það þá eðlilegt að jafnmargir til að mynda skuli starfa hjá Ríkisútvarpinu og hjá löggæslunni á höfuðborgarsvæðinu, almennri löggæslu. Og hvort það væri eðlileg forgangsröðun að sleppa því þá að byggja tónlistarhús og hlúa frekar að þeim (Forseti hringir.) innviðum sem þar eru.