138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

meðferð sakamála.

83. mál
[15:12]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson séum býsna sammála í þessum málum, að vinna hlutina með þessum hætti. Ég hins vegar held að það sé pínulítið varhugavert að draga út svona einstakar stofnanir og bera þær saman, því samanburðurinn er kannski ekki alltaf sanngjarn, að segja að það vinni jafnmargir hjá Ríkisútvarpinu og hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ég hef engar forsendur til að meta það.

Þess vegna tel ég afar mikilvægt að við förum sameiginlega í það verkefni að meta stofnanirnar alveg frá A til Ö. Það er auðvitað þannig og við vitum það að sumar stofnanir á vegum ríkisins og ráðuneytanna hafa bólgnað mjög út, ef svo má að orði komast, á síðustu árum sem er eðlilegt. Það gerist alltaf í góðæri. Þá þurfum við bara að hafa kjark til þess að fara með gagnrýnum augum í gegnum þær stofnanir og hugsanlega horfast í augu við það að leggja þurfi niður einhverjar stofnanir eða draga verulega úr starfsemi þeirra.