138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:13]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um breyting á lögum um dómstóla. Með frumvarpinu sem samið er af réttarfarsnefnd er lagt til að héraðsdómstólar landsins sem nú eru átta að tölu verði sameinaðir í einn héraðsdómstól fyrir allt landið. Í frumvarpinu er lagt til að héraðsdómur hafi starfsstöðvar víða um land þar sem dómarar hafi fast aðsetur. Þessi tillaga er byggð á hugmyndum sem dómstólaráð kynnti fyrir ráðuneytinu í byrjun þessa árs, en með sameiningu dómstólanna mætti ná fram aukinni hagræðingu í starfsemi þeirra. Með sameiningu mundi opnast möguleiki á að nýta betur starfskrafta dómara þannig að þeir yrðu ekki bundnir við einn tiltekinn dómstól, heldur gætu starfað við héraðsdóm hvar sem er á landinu.

Ef frumvarpið verður að lögum verða stöður dómstjóra sem eru átta, ein við hvern héraðsdómstól, lagðar niður, en í staðinn verður til ein staða dómstjóra héraðsdóms. Gert er ráð fyrir að dómstjóri héraðsdóms fari eins og nú er með faglega yfirstjórn héraðsdóms og stýri þar verkum við meðferð og rekstur dómsmála sem hann ber ábyrgð á. Ég undirstrika í þessu sambandi að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir fækkun dómara.

Lagðar eru til breytingar á dómstólaráði, bæði hvað varðar skipan þess og starfssvið. Í dag eiga sæti í dómstólaráði fimm menn. Af þeim eru tveir kjörnir af héraðsdómurum úr þeirra röðum, tveir eru kjörnir af dómstjórum úr þeirra hópi og einn er skipaður af ráðherra án tilnefningar. Vegna þeirrar breytingar sem lögð er til að einungis verði einn dómstjóri er lagt til að dómstjóri héraðsdóms sitji í dómstólaráði en Lögmannafélag Íslands tilnefni starfandi hæstaréttarlögmann í þá stöðu sem áður var skipuð öðrum tveggja dómstjóranna sem sátu í ráðinu. Gert er ráð fyrir að hinir þrír verði tilnefndir á sama hátt og nú er.

Lögð er til breyting á hlutverki dómstólaráðs að nokkru leyti frá því sem nú er. Í dag hefur hver og einn héraðsdómstóll sjálfstæðan rekstur og er stjórnsýsla hvers dómstóls undir yfirstjórn hvers og eins dómstjóra. Þannig hefur hver dómstjóri haldið utan um fjármál dómstólsins og starfsmannahald hans, en dómstólaráð hefur deilt út fé til dómstólanna sem veitt hefur verið í einu lagi til dómstólanna á fjárlögum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessu fyrirkomulagi verði breytt og dómstólaráði falið að fara á sína ábyrgð með allar fjárreiður héraðsdóms og einnig að fara með ráðningar annarra starfsmanna en dómara til héraðsdóms.

Þá er í frumvarpinu kveðið á um að dómstólaráð skipi ráðinu framkvæmdastjóra til fimm ára í senn. Staða framkvæmdastjóra dómstólaráðs hefur verið til um árabil án þess að kveðið sé á um hana í lögum, en nú þykir rétt að gera það, m.a. með tilliti til aukinna verkefna dómstólaráðs.

Þá er lagt til að dómstólaráði verði falið að ákveða hvar héraðsdómur hafi fastar starfsstöðvar og hvernig landinu er skipt í þinghár. Í dag er umdæmi hvers héraðsdómstóls ákveðið með lögum og hafa dómþinghár og þingstaðir verið ákveðnir með reglugerð ráðherra.

Þá er lögð til sú breyting á störfum aðstoðarmanna við héraðsdóm að dómstjóri geti falið þeim að gegna í takmörkuðum mæli dómstörfum í eigin nafni en í umboði og á ábyrgð dómstjóra og undir boðvaldi hans. Með þessari breytingu er stefnt að því að unnt verði að auka afköst héraðsdómstóla.

Sú breyting á lögum um dómstóla sem gerð hefur verið gerð grein fyrir kallar á breytingar á ýmsum öðrum lögum. Að mestu er um að ræða breytingar vegna þess að einungis verður til einn héraðsdómstóll í stað átta og ekki verða lengur til dómstólar sem kenndir eru við tiltekin umdæmi eða hafa lögsögu á landfræðilega afmörkuðu svæði. Rétt þykir að vekja athygli á einni breytingu sem lögð er til á lögum um meðferð einkamála hvað varðar með hvaða lágmarksfyrirvara birta þurfi stefnu í máli áður en það er þingfest. Hefur stefnufrestur verið þrír sólarhringar ef stefndi í málinu á heimili í þeirri þinghá þar sem málið verður þingfest, eða í þinghá sem hefur sama þingstað, en ein vika ella. Er í þessu tilliti litið á umdæmi héraðsdóms Reykjavíkur og héraðsdóms Reykjaness sem eina þinghá. Með því að frumvarpið miði að því að fyrrnefndir héraðsdómstólar verði ekki lengur til, getur sérreglan um stefnufrest ekki staðið óbreytt. Er því lagt til að stefnufrestur verði í öllum tilvikum ein vika ef stefndi er búsettur hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú reifað helstu atriði frumvarpsins. Breytingar á dómstólum krefjast mikillar og góðrar skoðunar og geri ég ráð fyrir að allsherjarnefnd muni senda frumvarpið til umsagnar síðar. Gert er ráð fyrir að verði frumvarpið að lögum taki þau gildi 1. janúar 2010, þó þannig að heimild dómstólaráðs til að taka ákvarðanir um hvar héraðsdómur hafi fastar starfsstöðvar og hvernig landinu er skipt í þinghár, taki þegar gildi eftir samþykkt og birtingu laganna. Skammt er til 1. janúar 2010 og er ljóst að vinnsla frumvarpsins mun taka nokkurn tíma í þinginu ef að líkum lætur. Er því nokkuð ljóst að allsherjarnefnd mun þurfa að skoða hvort ekki þurfi að ákveða nýjan gildistíma verði frumvarpið að lögum.

Virðulegi forseti. Hér er um mikilvægar tillögur til breytinga að ræða og ég tel rétt að allsherjarnefnd taki þær til gaumgæfilegrar skoðunar. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umræðu.