138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:28]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er með allar svona breytingar að þær þarf að ræða vel og skoða vel. Þær geta hljómað nýstárlega og þegar ekki er búið að ræða þær í þaula óttast menn kannski afleiðingarnar. Ég held að í þessu samhengi þá — þetta eru ekki nýjar hugmyndir að héraðsdómstólar yrðu ein stofnun. Þetta eru hugmyndir sem voru ræddar við aðskilnaðinn fyrir tæplega tveimur áratugum og eru í rauninni ekki nýjar af nálinni. En það breytir því ekki að það þarf að ræða þetta vel og ræða hvort við getum rekið hér átta héraðsdómstóla sem eru misjafnlega stórir og misjafnir í öllu mannahaldi eða að gera þetta að einni stofnun með öllum þeim kostum og hagræðingu sem í því felast. Í þeirri hagræðingu geta auðvitað verið ókostir. Það geta komið upp álitamál um hvort sópa eigi öllum héraðsdómurum á suðvesturhornið, sem er reyndar ekki markmiðið með þessu frumvarpi. Því er hins vegar ekki að leyna að mismikið álag er á dómurum víða um land og því þarf að skoða hvort ekki þurfi einhvern veginn að rétta það af og það er einmitt eitt af markmiðum þessa frumvarps.

Hvað varðar álag út af bankahruninu þá tel ég að það mál þurfi að ræða sérstaklega. Nú sé ég að tími minn er alveg að verða búinn, þannig að ég fæ kannski tækifæri til að koma að því síðar.