138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:53]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er eins með þetta mál og önnur að við fyrstu sýn virðist sem svo að hér eigi að ná fram einhvers konar sparnaði og strax vaknar umræðan, ef menn vilja ekki spara hér, hvar þá? Eins og kemur fram í frumvarpinu sjálfu þá er í rauninni ekki verið að spara hér peninga, heldur er fyrst og fremst verið að færa allt miðstýringarvald eða allt vald til höfuðborgarsvæðisins, miðstýringin verður hér og síðan á að ná fram einhvers konar hagræðingu eða sparnaði. Það er einfaldlega þannig að sporin hræða. Það er ekki að ástæðulausu að við sem höfum nú að undanförnu ferðast um kjördæmi okkar, skulum hafa orðið vitni að því á hverjum einasta stað að menn hafa áhyggjur af þessum þætti. Þetta eru störf fyrir menntað fólk, háskólamenntað fólk, vel launuð og ef þau fara úr þessum byggðarlögum, þá er einfaldlega ekki bara verið að fækka þessum vel launuðu störfum, heldur er einnig verið að vega að þeirri grunnþjónustu sem þarf að vera á hvaða svæði sem er á landinu. Það eru bara grunnmannréttindi að úti um allt land séu lögmenn þannig að menn þurfi ekki alltaf að leita hingað suður eða fara hingað suður ef þeir þurfa að fara fyrir dómstóla, þó að það sé að sjálfsögðu ekki markmiðið með þessu að færa alla dómstóla til Reykjavíkur, þá hræða sporin. Það er það sem þetta mál gengur út á.

Það á að leggja fram fleiri opinberar stofnanir, eins og embætti sýslumanna og skattstofa. Það er sama með þær og þetta, að ég hef miklar áhyggjur af því hvað verður í framtíðinni, hvort við missum þessi störf ekki einfaldlega frá okkur. Við erum að tala um kannski tvö til fimm störf á mörgum þessum stöðum og ef skorið verður niður eða ef menn ráða ekki í störf þegar einhver hættir, þá einfaldlega verður stofnunin á endanum lögð niður.

Ég tek undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að mikil hætta er á þessum tímum að ráðast í vanhugsaðar sparnaðarráðstafanir, sérstaklega þegar litið er til lengri tíma og eins og ég hef bent á er hætta á að sparnaðurinn verði ekki jafnmikill og látið er í veðri vaka.

Rekstrarkostnaður dómstólanna er nánast eingöngu launa- og húsnæðiskostnaður, a.m.k. 90%. Meginhluti annars kostnaðar er ferðakostnaður og kostnaður við að halda uppi dómstólaráði, sem í upphafi var aðallega ætlað að taka yfir verkefni frá dómsmálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu, en að litlum hluta nokkur verkefni sem dómstólarnir höfðu með að gera.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að fækka eigi héraðsdómstólum úr átta í einn. Eins og komið hefur fram í umræðunni er stefnt að því að vinnuálag verði jafnara en nú er og dómskerfið því betur í stakk búið til þess að taka við síauknum málafjölda. Þegar maður skoðar orðið dómskerfi þá er væntanlega átt við þennan eina dómstól sem tekur við.

Það kemur einnig fram að með breytingunni fækki bakvöktum og dómstjórum. Ég tel, eins og ég hef áður sagt, að hægt sé að jafna álag á dómara með öðrum hætti en sameiningu allra dómstólanna og ítreka það sem ég sagði áðan, það er einfalt að senda mál á milli dómstóla. Það er eitthvað sem við ættum að skoða. Vonandi tekur allsherjarnefnd það mál sérstaklega fyrir.

Ég vil líka benda á að launamunur dómara og dómstjóra á landsbyggðinni er mjög lítill. Það má líka gera ráð fyrir því að laun væntanlegra útibússtjóra verði eitthvað hærri en dómara. Þannig að sparnaður af þessu verður afar óverulegur. Ég get alveg fallist á það að með fækkun dómþingháa megi lækka ferðakostnað. Og einnig að niðurfelling bakvakta muni leiða til nokkurs sparnaðar. Ég vil ítreka enn á ný að hægt er að ná þessum sparnaði innan óbreytts kerfis ef vilji er til þess.

Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra að ræða það ofan í kjölinn hvort sú leið sé einfaldlega ekki fær. Og að skoðað verði hvort ekki megi ná hagræðingunni fram á þennan hátt án þess að breyta núverandi kerfi. En ég vil nú líka benda á að bakvaktir dómara hafa verið taldar nauðsynlegar til að auðvelda útköll dómara utan vinnutíma til að kveða upp nauðsynlega úrskurði í sambandi við rannsókn sakamála, gæsluvarðhaldsúrskurði, húsleitarúskurði o.fl.

Síðan vil ég benda á að enn á ný er verið að taka skref sem hefur ítrekað verið ákveðið að taka ekki. Þegar lögin um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði voru samþykkt eða tóku gildi 1. júlí 1992, var einmitt sérstaklega gengið út frá því að héraðsdómstólar yrðu átta. Ég ætla aftur að lesa það sem kemur fram í greinargerðinni með því frumvarpi þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með tilkomu héraðsdómstólanna má reikna með því að aukinn fjöldi dómsmála verði útkljáður utan Reykjavíkur, en nú eru allmörg mál, sem eiga uppruna sinn utan höfuðborgarsvæðisins, dæmd fyrir dómstólum í Reykjavík, með samkomulagi aðilja um varnarþing hvað einkamál varðar, en samkvæmt ákvörðun ríkissaksóknara hvað opinber mál varðar. Gera má ráð fyrir að lögmenn muni í auknum mæli finna sér starfsgrundvöll í nágrenni starfandi héraðsdómstóla og að aukin þjónusta á sviði dómgæslu muni styrkja byggðina utan höfuðborgarsvæðisins.“

Þessi skoðun þeirra sem sömdu þetta frumvarp á sínum tíma hefur í öllum aðalatriðum reynst rétt og á jafnt við í dag og þegar hún var sett fram. Með tilkomu dómstólanna tók þjónustan við landsbyggðina á þessu sviði miklum framförum, bæði með markvissari þjónustu dómstólanna og stórauknum fjölda lögmanna, sem sáu sér hag í því að starfa í námunda við dómstólana. Við sem höfum unnið við lögmennsku áttum okkur á því að sá tími sem fer í það að ferðast að þeim dómstóli sem næstur er eða öðrum er gríðarlega mikilvægur og getur verið dýr en oft fara menn margar ferðir jafnvel þó að tilefnin séu lítil.

Ég tel augljóst að ef þessi aðgerð verður að veruleika þá beinist hún fyrst og fremst að landsbyggðinni. Verið er að færa verkefni frá dómstólunum í hendur dómstólaráðs, sem mun m.a. annast ráðningu alls annars starfsfólks við dómstólinn en skipun dómara sem hingað til hefur verið verkefni dómstjóranna. Ég held að við þurfum að velta því verulega fyrir okkur hvort við séum ekki einfaldlega að sóa almannafé með því að halda uppi dómstólaráði. Það væri ágætt að fá álit hæstv. dómsmálaráðherra á því hvort einfaldlega sé ekki hægt að spara með því að leggja hugsanlega dómstólaráð niður, þótt ég ætli nú ekki að leggja það til hér og nú, en ég velti þeirri spurningu upp. Ég held að við ættum að skoða það um leið og við förum í gegnum þessi mál.

Að lokum vil ég segja, og það er skoðun mín, að verði téð frumvarp að lögum mun það leiða til minnkandi starfsemi dómstóla á landsbyggðinni og færa úrlausn mála til Reykjavíkur með sameiningu málsaðila eða ákvörðun ríkissaksóknara. Þar með verður ekki lengur hagkvæmt fyrir lögmenn að setjast að á landsbyggðinni. Þetta mun leiða til lakari lögfræðiþjónustu, sem mun leiða af sér aukinn kostnað fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Með þessu er verið að stíga skref til veikingar byggða utan höfuðborgarsvæðisins. Ég óska því eftir því að allsherjarnefnd og þingmenn allir íhugi mjög vandlega hvort rétt sé að fara í þær aðgerðir sem hér eru boðaðar, eða hvort ekki sé hægt að ná fram hagræðingu á annan hátt og standa vörð um landsbyggðina, því eins og þingmenn vita þá má landsbyggðin ekki við því að fleiri opinber störf verði skorin niður heldur en nú er lagt til í því fjárlagafrumvarpi sem er til meðferðar í fjárlaganefnd, en þarna gætum við aðeins spyrnt við fæti.