138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:05]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær tvær ræður sem ég og aðrir hérna í salnum höfum hlýtt á núna síðast þykja mér svolítið undarlegar vegna þess að það sem er til umræðu er frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla. Það felur í sér að lagt er til að skipulagi verði breytt og einn héraðsdómur verði í landinu með starfsstöðvar á ýmsum stöðum úti um landið og það fyrirkomulag komi í stað þess að hafa dómstóla, fastráðna dómara starfandi við dómstóla víðs vegar um landið þar sem vinnuálag er ákaflega mismunandi mikið — líf dómara er allt frá því að vera ákaflega rólegt og yfir í að vera mjög annasamt.

Fyrir mína parta finnst mér ósiðlegt og mér finnst það óboðlegt Alþingi Íslendinga að ætla að líta á dómstóla í landinu sem tæki til að stuðla að byggðastefnu eða jafnvægi í byggð landsins. Til þess hefur Alþingi Íslendinga aðrar aðferðir, ef það kærir sig um, og dómstólar eiga að snúast um að halda uppi lögum og réttlæti í landinu öllu þannig að allir íbúar landsins lúti sömu lögum. (Forseti hringir.) Að gefa út sérstaka byggðakvóta í réttarkerfinu er fáránlegt.