138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir mjög málefnalega ræðu, ég get tekið undir nánast hvert einasta orð sem hann sagði. Hann sagði að lögmenn, og hann sem lögmaður, gætu starfað hvar sem er á landinu. Þá langar mig að spyrja hann, af því að hann er löglærður maður en ekki ég: Þyrfti að breyta lögum til að dómstólarnir gætu tekið að sér frekari verkefni vegna rafrænna samskipta? Er eitthvað í lögum í dag sem hindrar að hægt verði að gera það með þeim hætti?

Ég tek einnig heils hugar undir með honum þar sem hann kemur inn á að verið sé að setja alræðisvald á svokallað dómstólaráð. Þá langar mig að spyrja hann hvort honum finnist að Alþingi sé með þessum lögum að afsala sér einhverjum völdum til dómstólaráðs og eins langar mig að spyrja hann út í það, af því að hann kom inn á það í ræðu sinni — þyrfti þá ekki að liggja fyrir núna, þegar verið er að ákveða þetta, hvar þessir héraðsdómstólar ættu að starfa úti á landsbyggðinni? Í skýringum með frumvarpinu kemur fram að dómstólaráð ákveður eftir þörfum hvar héraðsdómstólar eigi að vera utan höfuðborgarsvæðisins. Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög sérkennilegt að ekki liggi fyrir hvernig menn sjá fyrir sér heildarmyndina í þessu máli. Það er a.m.k. mjög loðið að menn ætli að ákveða það eftir þörfum og er þá þörfin eitthvað breytileg? Ætla menn að vera með einhverja farandshéraðsdómstóla? Hvernig sjá menn þetta eiginlega fyrir sér? Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þetta liggi þá ekki hreinna fyrir.