138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:49]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör en mér fannst — ég tók ekki nógu vel eftir því sem hann sagði um þessi rafrænu samskipti í sambandi við dómstólana, það væri aðallega í þessum skjölum sem verið væri að færa á milli, þá langar mig að spyrja hann: Sér hann einhverja annmarka á því að hægt sé að gera það eða er þetta bara einföld lagabreyting, af því að hann þekkir þetta mjög vel, og væri þá lítið mál að bregðast við því?

Eins langar mig að spyrja hv. þm. Atla Gíslason hvort hann hafi ekki áhyggjur af réttarfarslegu öryggi íbúa úti á landsbyggðinni sem þurfi að sækja í þessa héraðsdómstóla. Ef þú fækkar starfsmönnum og flytur þetta, sogar þetta allt á suðvesturhornið, lendir fólk alla vega í því að þurfa að svara til saka og eins að sækja rétt sinn gagnvart dómstólum. Fólk sem lendir í slysum og þar fram eftir götunum þarf þá hugsanlega að keyra langar vegalengdir. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að ákveðinn kostnaður, sem ætti að sparast í að minnka eða stækka svæðið réttara sagt, dómstólana, færist þá að hluta til yfir á íbúana.

Mig langar líka að spyrja hann — lögmenn starfa margir úti á landsbyggðinni og hafa byggt upp lögmannsstofur þar með góðum árangri og það hefur áhrif á uppbygginguna í samfélaginu, fólk með þessa menntun hefur þá möguleika á að fara og byggja upp þessa starfsemi í kringum dómstólana. Þó að menn geti svo sem starfað alls staðar þá var bent á það í ræðu áðan að þó að sparist gagnvart nauðungarsölum og öðru þá er því beint til þeirra manna sem eru næstir hvort þetta mundi þá ekki geta haft áhrif á uppbyggingu samfélaganna og þá í raun og veru jafnan búseturétt í framhaldi af því vegna þess að þá hefur fólk ekki sama aðgang að þessari þjónustu.