138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[17:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið mjög góð og málefnaleg umræða og hefur staðið lengi og ég ætla rétt aðeins að blanda mér í hana.

Fyrir mörgum árum sagði ég að það ætti að vera hagsmunamál þingmanna landsbyggðarinnar að minnka ríkisvaldið. Af hverju? Vegna þess að stækkun ríkisvaldsins á sér alltaf stað í valdamiðjunni. Valdamiðjan er Reykjavík, þannig að stækkun ríkisvaldsins þýðir að umsvifin vaxa í valdamiðjunni og soga til sín mannafla og kraft frá landsbyggðinni. Þetta erum við að ræða um. Það sem landsbyggðarþingmenn hér segja er í rauninni neyðaróp landsbyggðarinnar sem sér öll opinber störf meira og minna fara til Reykjavíkur. Þetta er það sem við erum að upplifa og þetta er það sem við erum að ræða, við erum ekki að ræða um neitt annað.

Það gerist ekki þó að menn hafi sagt hér aftur og aftur, ráðherra eftir ráðherra, hæstvirtir, hafi sagt: Við ætlum að flytja störf út á landsbyggðina. Það gerist ekki, það bara hreinlega gerist ekki af því að fólkið vill vera í valdamiðjunni, embættismenn vilja vera í valdamiðjunni. Þar komast þeir frekar til áhrifa og annað slíkt.

Af hverju nefni ég þetta sérstaklega núna? Það er vegna þess að Ísland er búið að sækja um, fyrirvaralaust, aðild að Evrópusambandinu. Hvað gerist þá, frú forseti? Þá munu heyrast kveinstafir íslenskra þingmanna um valdamiðjuna í Brussel. Við munum lenda í nákvæmlega sömu stöðu og bæjarstjórn Ísafjarðar, sem vill fá einhver verkefni, vill fá spítala, vill fá höfn, vill fá einhverjar framkvæmdir, það þarf að betla til Brussel, því að þar sem valdamiðjan er þar vex ríkið. Ég vara við þessu. Þetta er ein meginástæðan fyrir því að ég er á móti því að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Af því að ég sé að hérna eru hv. þingmenn sem eru heittrúaðir Evrópusinnar vil ég biðja þá um að hugsa þetta, hugsa það að valdamiðjan dregur til sín afl og safa úr þjóðfélaginu og eftir sitja byggðir eins og Ísafjörður, eins og Hornafjörður o.s.frv. sem sjá allt streyma burt frá sér.