138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[17:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar frá því í andsvari mínu við hæstv. dómsmálaráðherra hér áðan fyrir sköruglega ræðu og ágæta yfirferð yfir þetta frumvarp sem hefur fengið mikla og góða umræðu í dag. Í því andsvari vakti ég athygli á því að ég teldi ekki rétt að dómstólaráði væri falið að ákveða hvar héraðsdómarar hefðu fastar starfsstöðvar. Mér heyrist að það sjónarmið njóti ágætisstuðnings hér í þingsalnum og mælist því til þess að allsherjarnefnd taki það til mikillar athugunar hvort rétt sé að endurskoða þetta ákvæði og ákveða það hér í þessum sölum hvar starfsstöðvum héraðsdóms verði valinn staður ef svo fer að frumvarpið fari í gegnum þetta þing.

Þá vakti ég jafnframt máls á því, í andsvari mínu við hæstv. dómsmálaráðherra, að ég teldi litlar líkur til þess að þessar breytingar mundu leiða til mikils sparnaðar og vek athygli á því, þar sem ég sit ekki í allsherjarnefnd sjálf, að vel verði farið yfir það atriði vegna þess að við eigum gott og öflugt dómstólakerfi sem hefur skilað miklum árangri og hefur gefist vel víðast hvar um land og ég tel ekki rétt að rugga þeim bát að ástæðulausu.

Virðulegi forseti. Það hefur verið fullyrt hér að álagi á dómstólum sé gríðarlega misskipt milli landshluta. Ég tel rétt að það komi þá fram einhverjar tölur um það og ég varpa þeirri spurningu fram til ráðherrans, af því að ég veit að hæstv. ráðherra mun tala hér á eftir, hvort slíkar tölur liggi fyrir. Nú er ég sjálf fyrrverandi aðstoðarmaður dómara á Suðurlandi og þekki af eigin reynslu að þar er mikið álag. Þar eru einfaldlega færri starfsmenn en í Héraðsdómi Reykjavíkur en þar er samt engu að síður mjög mikið álag á starfsmenn. Þeir starfsmenn sem hafa komið inn á þann héraðsdómstól — það vakti ákveðna undrun þeirra hversu mikið álagið væri. Það er ekki þannig að menn flytji sig í dómarastarf út á land til þess að hvíla sig, þetta er alls ekki þannig. Það eru færri starfsmenn, fleiri mál sem hver dómari þarf að taka á og ólíkir málaflokkar, færri aðstoðarmenn o.s.frv. Álagið er því vissulega mikið víðast hvar í dómstólum landsins og ég tel að það sé sama fyrir norðan. Í þeim dómstólum þar sem aðeins einn dómari er starfandi eru starfsaðstæður að sjálfsögðu öðruvísi en álagið engu að síður mikið.

Því er ekki að heilsa þar að dómarinn hafi eitthvert val um það hvaða málaflokk hann velur sér, hann verður einfaldlega að geta sinnt hverju sem er, þannig er það. Það má tala um að það séu einhver fagleg rök fyrir að stækka dómstólana þannig að hægt sé að skipta með sér málum eftir því hvaða málaflokkar eigi við, en ég tel ekki rétt að orða það þannig að álagi sé misskipt — að það séu einhverjir dómstólar þar sem fólk situr og gerir ekki neitt. Ég er einfaldlega ósammála þeirri fullyrðingu og óska eftir því að það komi þá fram einhverjar tölur um það sem hægt er að ræða og diskútera.

Virðulegi forseti. Töluvert hefur verið rætt hér um landsbyggðina og hvort það sé réttmætt sjónarmið að tala um að þetta sé aðför að opinberum störfum á landsbyggðinni o.s.frv. Allir þeir sem starfað hafa í sveitarstjórnum úti um land þekkja þá baráttu sem felst í því að halda störfum í héraði. Nú er það svo að hvert einasta starf skiptir gríðarlega miklu máli og fyrir lítið bæjarfélag eða lítil sveitarfélög og litlar einingar skiptir hálaunastarf, þar sem um er að ræða háskólamenntaða einstaklinga, gríðarlega miklu máli. Hvert eitt og einasta slíkt starf skiptir máli og það að þau hverfi á braut er alltaf áfall fyrir þær byggðir.

Ég vil vekja athygli á ályktun frá ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem haldið var á Höfn í Hornafirði 15.–16. október sl., þar sem fram kemur m.a., með leyfi forseta, að sveitarstjórnarmenn undrist þær áherslur sem fram hafa komið í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um þjónustu ríkisins á landsbyggðinni. Allir séu meðvitaðir um að draga þurfi saman í ríkisrekstri en fundurinn geri þá kröfu að í því verkefni hafi ríkisstjórnin það að leiðarljósi að jafnræðis milli landshluta sé gætt. Sérstaklega sé horft til þess að stór svæði utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar nutu að engu eða litlu leyti þess uppgangs sem var fyrir efnahagshrunið.

Virðulegi forseti. Þetta er ályktun sveitarstjórnarmanna á Suðurlandi en ég tel að sveitarstjórnarmenn víðast hvar um land geti tekið undir þessi orð.

Þá kemur jafnframt fram í ályktuninni, með leyfi forseta:

„Niðurlagning sýslumannsembætta, embætta lögreglustjóra, héraðsdómara og skattstjóra og skerðing á grunnþáttum í heilbrigðisþjónustu, svo sem sjúkraflutningum, eru dæmi um vinnubrögð þar sem þessa jafnræðis er ekki gætt. Ekki hefur verið sýnt fram á sparnað af þessum tillögum. Slíkar aðgerðir munu hins vegar leiða til verra aðgengis að þjónustu og aukins kostnaðar við að fá þjónustu sem lenda mun á íbúum svæðisins. Veruleg hætta er á að störfum sem krefjast menntunar fækki við áformaðar aðgerðir og þingið bendir einnig á að rekstrarkostnaður á landsbyggðinni getur verið umtalsvert lægri en á höfuðborgarsvæðinu.“

Frú forseti. Ég tel að þarna kristallist þær áhyggjur sem landsbyggðarmenn og sérstaklega sveitarstjórnarmenn, sem eru kosnir til þess að verja hagsmuni síns byggðarlags — þarna kristallast þær og koma skýrt fram. Þetta eru ekki rök sem hægt er að blása út af borðinu, frú forseti, um þetta þarf að fjalla og við þurfum að vera meðvituð um það þegar við horfum á heildarmyndina sem fjárlögin vissulega gefa þessu fólki. Það er verið að fara í gríðarlega miklar breytingar og þegar allt þetta er talið saman, sýslumannsembættin, lögreglustjórarnir, héraðsdómstjórarnir, skattstjórarnir og heilbrigðisþjónustan, skerðingar þar sem við blasa, þá er þetta vissulega áhyggjuefni og alveg skiljanlegt að menn séu að tala um þetta.

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. dómsmálaráðherra ítrekaði það í ræðu sinni að þetta mál væri það stórt og viðamikið að það krefðist mikillar ígrundunar af hálfu allsherjarnefndar og mikillar yfirferðar. Ég vonast til þess að það verði gefinn tími til þess að fara vel yfir þetta og kalla jafnframt eftir því að ég fái upplýsingar um þær tölur sem svo mjög hefur verið talað um í þessari umræðu.