138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[17:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ræðu og ég verð að segja eins og er að mér finnast nú miklu ljósari þær hugmyndir sem búa að baki þessa. Þær fela það m.a. í sér að það er greinilega ætlunin að sameina dómstólana á Norðurlandi og jafnframt að fella niður þinghá utan dómstóla, sem er heilmikil breyting í sjálfu sér. Þetta mun t.d. þýða að sá sem þarf að fara fyrir dómstóla, sem væntanlega yrðu á Akureyri, og byggi vestast á Norðurlandi þyrfti að fara um 200 km leið þannig að þetta er gríðarleg breyting.

Það sem hæstv. ráðherra sagði síðan í lokin um ákall dómstólaráðs og Hæstaréttar, og þær áhyggjur sem voru ræddar í ríkisstjórninni í morgun, sýnir auðvitað svart á hvítu, sem ég var að árétta í ræðu minni hér áðan, að það er hrein óskhyggja sem kemur fram í athugasemdum við þetta lagafrumvarp að sú skipulagsbreyting sem hér er verið að boða leiði til þess að síður verði þörf á því að fjölga héraðsdómurum í bráð. Þessi þörf blasir við eins og hæstv. ráðherra sagði og þetta frumvarp er ekki innlegg í að leysa það.