138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[18:06]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bara örstutt. Ég vil vekja athygli þingheims á síðustu orðum ráðherra í ræðu sinni áðan þar sem hún tilkynnti þingheimi að hún hefði tekið málefni dómstólanna upp á ríkisstjórnarfundi í morgun, málefni sem við í allsherjarnefnd höfum mörg haft áhyggjur af, við höfum talið að aukning á fjárveitingum til dómstólanna þurfi að koma til í kjölfar bankahrunsins. Ég vil því fagna því sem hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra greindi okkur frá hér að málið hefði verið kynnt og tekið upp í ríkisstjórn, en jafnframt inna hana eftir framhaldi þess máls. Megum við búast við því hér á þingi að málið komi hingað eftir umfjöllun í ríkisstjórn eða hvaða væntingar hefur hún um afgreiðslu ríkisstjórnarinnar?