138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[18:29]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður gaf í skyn að skiptar skoðanir eru um þetta frumvarp og sitt sýnist hverjum. Það má ráða af efni umsagna að ef menn eru fylgjandi persónukjöri á annað borð, og það eru ekki allir fylgjandi persónukjöri, gæti þetta virst raunhæf leið sem lögð er til í frumvarpinu. Hins vegar eru til aðrar leiðir og ég býst við því að það falli í hlut allsherjarnefndar að ræða þær leiðir.

Efni umsagna var ekki á þá lund að þær gæfu skýra vísbendingu um að það ætti að breyta því sem lagt var af stað með þótt vissulega hafi verið, eins og ég segi, skiptar skoðanir. Það var sem sagt ákveðið að breyta ekki þeirri nálgun sem var lögð til hér í sumar heldur leggja frumvörpin fram aftur svo til óbreytt. Það fellur þá í hlut þingsins að ræða það, ef þinginu hugnast ekki sú nálgun og er það þá, eins og með önnur þingmál, spurning er hvort þingið vilji breyta þeirri nálgun eitthvað, hvort það sé þá hægt að kjósa jafnvel til þess að hafa þetta alveg opið eða hvort þetta eigi að vera bundið við lista. Það er eiginlega of langt mál að fara út í möguleikana, en eins og ég segi, sitt sýnist hverjum í þessu.