138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[18:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tel mikilsvert að einhvers konar persónukjör verði tekið upp. Það er nú reyndar þannig í mínum flokki að þar hefur yfirleitt alltaf verið prófkjör sem í mínum huga er persónukjör. Ég hefði sennilega aldrei komist á þing nema í gegnum prófkjör, bara til að halda því til haga. Svo getur maður hugleitt hvort það sé jákvætt eða neikvætt. (Gripið fram í.) Takk.

Þá er það spurningin hvernig menn vilja hafa slík prófkjör. Ég verð að segja það í gegnum mína reynslu, ég hef töluverða reynslu af því að fara í gegnum mörg prófkjör og margar kosningar, að það er gífurlegur eðlismunur á prófkjöri og kosningum. Og hver er hann eiginlega, frú forseti? Hann er sá að í prófkjöri eru menn í návígi, þeir eru að berjast við vini sína. Það er bara þannig. Í kosningum er flokkurinn að vinna saman. Ég held að það yrði afskaplega hættulegt að flytja þetta yfir á sama daginn, vegna þess að þá eru menn á sama tíma að keppa innbyrðis og reyna að afla flokknum fylgis og spurningin er hvort verður ofan á og hvort það verður ofan á hjá öllum frambjóðendum. Það getur leitt til mikilla leiðinda og mikilla deilna og mikils klofnings, sem ég held að sé ekki á bætandi. Þess vegna vara ég töluvert mikið við þessari aðferð við persónukjör.

Það sem mig langar að segja hér, af því hæstv. ráðherra sagði að þetta væri til umræðu í nefndinni og ég reikna með að öll mál séu alltaf til umræðu í nefndum, þær geta þá breytt því og gert það sem þær vilja, að fyrir utan það geysilega flækjustig sem er í frumvarpinu — það er óskaplega flókið. Ég vil nefna það í þessu sambandi að talið er að í venjulegum þjóðfélögum séu u.þ.b. 7% sem ekki kunni að lesa, ekki sér til gagns. Það fólk er töluvert varnarlaust í svona flóknu kerfi. Það verður að taka tillit til þess líka. Kerfin þurfa að vera einföld.

Ég vil skoða það hvort ekki væri skynsamlegra að fara í sameiginlegt prófkjör allra flokka. Nú ætlar Sjálfstæðisflokkurinn t.d. að hafa prófkjör 23. janúar. Þá gætu allir þeir sem vilja bjóða fram til sveitarstjórnar í Reykjavík komið að sameiginlegu prófkjöri, jafnt flokkar sem flokksleysingjar, jafnt hreyfingar sem borgarahreyfingar. Þær gætu sem sagt komið með lista af fólki sem yrði stillt upp. Kjósandinn kemur þá í kjörklefann og velur sér einn af seðlunum sem merktir eru flokkunum; einn fyrir D, vonandi, einn fyrir S, sem ég vona nú ekki, en kjósandinn getur valið sér einn kjörseðil og má bara skila einum kjörseðli. Á þeim kjörseðli raðar hann með hefðbundnum hætti inn á listann, þar með er það prófkjör, en án þess að menn hafi áhrif á aðra flokka en þann flokk sem þeir ætla að kjósa, það er hindrað. Enginn veit þá í rauninni hvaða flokk kjósandinn kaus, því að hann brýtur seðilinn saman og gengið er úr skugga um að þetta sé einn seðill og ekkert annað, mætti jafnvel vigta hann, og hann sem sagt skilar þeim seðli og gengur út og prófkjörið hefur átt sér stað.

Kosturinn við þetta er sá að það liggur fyrir hvaða fólk leiðir viðkomandi lista í kosningunum, sem kannski eiga sér stað tveimur eða þremur mánuðum seinna, — þá liggur fyrir hvaða fólk leiðir listann. Það er t.d. hugsanlegt, svo við nefnum hérna nærtækt dæmi, Borgarahreyfinguna, að ef hv. þingmaður sem hefði sagt sig úr hreyfingunni — ef hann hefði verið fyrstur í flokknum í persónukjöri í prófkjöri, þá er ekkert víst að allir hefðu sætt sig við það. En það getur vel verið að margir hefðu kosið þann flokk eftir slíkt prófkjör af því hv. þingmaður var fremstur á lista. Kjósandinn veit miklu meira hvað hann er að kjósa en í því frumvarpi sem hér er lagt til. Hann veit í rauninni ekkert hvað kemur út úr þessu. Það er háð því hvað aðrir kjósa.

Ég ætlaði nú bara að koma þessari hugmynd á framfæri og ég vona að hv. nefnd skoði þetta vandlega.