138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[18:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa athyglisverðu ábendingu. Hún er athyglisverð að því leyti að þarna er hv. þingmaður að gagnrýna flokksræðið, sem ég hef reyndar gert sjálfur í gegnum tíðina. Ég nefndi að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið með prófkjör í gegnum tíðina en það er ekki vegna þess að ég sé einhvern veginn að leggja áherslu á Sjálfstæðisflokkinn heldur vegna þess að það hefur verið tíðkað þar að hafa slíkt persónukjör.

Það sem mætti gera þó, og hv. nefnd gæti þá skoðað, væri hreinlega að leyfa eins manns flokk, sem færi í þetta fræga prófkjör 23. janúar í Reykjavík og byði sjálfan sig fram sem flokk. Svo er spurning hvernig því mundi reiða af í kosningum seinna meir. Sennilega yrði að hafa einhver mörk á því svo að ekki komi 10 þúsund flokkar eða 10 þúsund seðlar til að kjósa um, en ég legg til að hv. nefnd skoði þetta, því að mér finnst þetta allrar athygli virði að menn reyni að brjóta upp vald flokkanna.