138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:06]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég vil byrja á að svara því að að sjálfsögðu stefnum við öll að því að gera þetta frumvarp að lögum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Það á hins vegar eftir að fá efnislega meðferð í allsherjarnefnd. Ég hef áður bent á það að það er stuttur tími til stefnu. Við munum engu að síður gera okkar besta og afgreiða málið ef það er mögulegt. Það sem ég var að draga fram er að það komu athugasemdir frá ÖSE eftir síðustu kosningar þar sem bent var á það, og byggt á reynslu frá öðrum löndum, að alla jafna væri óheppilegt að gera svona róttækar breytingar svona stuttu fyrir næstu kosningar. Það var eingöngu það sem ég var að draga fram, en að sjálfsögðu stefnum við að því að klára þetta mál. Ég vona að það svari spurningu hv. þingmanns.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði mig um, hvort ég hefði ekki fylgst með því sem hefði gengið hér á í þinginu í vetur — jú, svo sannarlega hef ég gert það, en innst inni er ég mikil flokksmanneskja og ég hygg að ástæðan fyrir þeim hremmingum sem ýmsar hreyfingar og ýmis flokksbrot hafa lent í á þessum vetri hafi einmitt verið sú að sá hópur sem staðið hefur að þeim hreyfingum og þeim flokksbrotum hafi ekki verið nægilega hugmyndafræðilega samstilltur, þ.e. að ekki hafi verið byggt á nægilega sterkum grunni, þannig að þeir einstaklingar sem hafa verið í framboði þar hafi ekki verið búnir að vinna sína heimavinnu og sína stefnu það vel og að það hafi leitt til þess að menn hafa (Gripið fram í.) verið ósammála hér í meginatriðum. Það er mitt svar við þessu, og það er mín túlkun á því hvað hefur gerst hér í vetur hjá flokksbrotum og innan ýmissa flokka. Menn hafa bara ekki staðið nægilega styrkum fótum á sameiginlegri pólitískri hugmyndafræði.