138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:08]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir að deila með mér skoðunum sínum á innanflokkserjum, bæði í Borgarahreyfingunni sálugu, sálugu sem þingflokki, og í öðrum flokkum. Ég get ekki samþykkt að það hafi stafað af ónógri hugmyndafræðilegri samstillingu, vegna þess að ég fullyrði að til að mynda stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar fyrir síðustu kosningar hafi ekki verið mikið lengri en faðirvorið. Svo það átti ekki að vera svo erfitt að muna hvað í henni stendur. Hvað innanflokksmein annars staðar varðar þá skal ég ekki fara út í þá sálma að þessu sinni, nema bara að mér finnst að til að mynda hjá Vinstri grænum séu sumir vinstri og aðrir grænir og jafnvel til skiptis, svo ég á afskaplega erfitt með að henda reiður á það fyrir hvað sá flokkur stendur. Þess vegna hafna ég því að frjálst val milli ólíkra lista leiði til einhverra skarpari lína í pólitík en þetta ímyndaða ljúfa kerfi sem flokksveldið á eða telur sig geta séð okkur fyrir.

Ég ætla að lokum að segja það að ég er algjörlega á móti því að frumvarp um persónukjör fyrir sveitarstjórnarkosningar verði að lögum þannig að kosið verði eftir því í sveitarstjórnarkosningunum, (Forseti hringir.) og sömuleiðis vil ég ekki að við stígum hænufet í lagasetningu, ég vil að við tökum stórt skref og stígum þungt til jarðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)