138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda kærlega fyrir spurninguna. Ég get verið henni hjartanlega sammála, það er vilji kjósenda sem á að koma fram á kjördag. Ef við treystum ekki kjósendum til þess að kjósa það sem þeir vilja er illa komið fyrir okkur sem lýðræðisþjóð. Það er meginstefið í skoðunum mínum hvað þessa breytingu á kosningalögum varðar, það er að kjósandinn fái fulla ábyrgð á kjörseðli sínum og beri þá fulla ábyrgð á því sem kemur út úr kosningunum, án allra girðinga. Og þar á ég við allra girðinga, t.d. að kjósandi velji jafnt hlutfall kvenna og karla, að kjósandi velji þá aðila sem hann treystir og þannig náist fram þær lýðræðisumbætur sem ætlunin er að ná með persónukjöri.

Ég ítreka að ég harma að ekki sé hægt að ganga alla leið í þessum breytingum á frumvarpinu, að kjósandinn fái líka fullt frelsi til þess að flakka á milli flokka, því að sem betur fer erum við svo lánsöm að Ísland á mikið af frambærilegu fólki og kláru. Þá gæti kjósandinn gengið alla leið og valið þá líka á milli lista það fólk sem honum líst á girðingalaust.