138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:31]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að vita að við hv. þm. Vigdís Hauksdóttir erum sammála um að jafnrétti verði ekki komið á með þvingunum. Þvinganir og miðstýring eru að mínu mati ekki sérstaklega lýðræðislegar aðferðir til að velja fólk til stjórnmálaþátttöku. Ef meiri hluti kjósenda vill fleiri konur en karla er það lýðræðisleg niðurstaða og ef meiri hlutinn vill fleiri karla en konur er það líka lýðræðisleg niðurstaða.

Ég velti stundum fyrir mér hvort fullkomið jafnrétti sé til. Ég held að við séum einfaldlega komin það langt á hinni póst-femínísku braut að okkur sé óhætt að treysta almenningi fyrir frekari framgangi jafnréttismála hér á landi. Auk þess er jafnréttishugtakið miklu víðara en svo að það eigi eingöngu að ná yfir jafnrétti kynjanna. Við getum þá velt fyrir okkur hvort við ættum ekki líka að fara fram á jafnrétti milli kynþátta eða kynhneigðar eða aldurs, fötlunar, uppruna eða jafnvel háralitar.