138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Ríkisstjórnin virðist ekki treysta sér til að ganga alla leið í þessu máli vegna innanbúðarhræðslu við þá leið að kjósandinn fái að fylgja skoðun sinni alla leið í gegnum kosningarnar á kjördag. Farið var í gegnum þá vinnu í nefndinni hvað varðar einstaklingsframboð og annað og líka þau vandamál sem sköpuðust hér í síðustu kosningum, þ.e. að ekki var hægt að manna lista. Við verðum þá að skoða það í allsherjarnefnd ef þær kröfur eru settar á samkvæmt lögum að til þess að mega bjóða fram til kosninga, hvort sem það eru sveitarstjórnarkosningar eða alþingiskosningar, þurfi ákveðinn fjöldi fólks að vera í boði til að listi sé tekinn gildur. Þessu var breytt fyrir 10–15 árum, þá þurftu ekki allir að bjóða fram tvöfalda þingsætatölu í kjördæmi og í vor þurfti einn listi að draga sig til baka af því að það var ekki hægt að manna listana. Það er sitt hvað að styðja stjórnmálaflokk og fólk innan hans eða það að taka sæti á lista, það er tvennt ólíkt.

Eins og ég sagði hér áðan hugsa ég að við komum til með að leggja það til að fresta gildistöku á breytingum á kosningum til sveitarstjórna vegna tímaskorts. Það leiðir líka til þess að þessi lög verða vandaðri og séu ekki hraðsoðin eins og önnur lög sem Alþingi hefur sett nú á haustþinginu þar sem málum er skotið inn á afbrigðum og orðin að lögum og þingmenn geri hér lítið annað en að gera lagabætur. Ég held því að það væri mjög til bóta fyrir málin bæði að gildistökunni verði frestað á sveitarstjórnarlögunum og þetta verði þá fyrst prófað samkvæmt frumvarpinu til alþingiskosninga.