138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:38]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta ágæta og greinargóða andsvar. Ég hlakka til að eiga samstarf við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um þessi mál í allsherjarnefnd. Þær fáu sekúndur sem ég á eftir af tíma mínum hérna langar mig til að nota til að koma á framfæri þeirri grundvallarskoðun minni að lýðræði þar sem ekki er tryggt að konur og karlar eigi svipað stóran hlut að máli er ekkert lýðræði, það er bara gervilýðræði. (Gripið fram í.) Miðað við þá stjarnfræðilegu og flóknu útreikninga sem liggja til grundvallar þessum frumvörpum gæti fimm ára barn sett fram reiknilíkan að því hvernig tryggja ætti að hlutur kynjanna væri nokkurn veginn jafn þegar upp er staðið. Það er svo einfalt að ef tveir karlmenn eru kosnir verður númer 2 bara að bíða þangað til kona er komin fram fyrir hann og að sjálfsögðu á hinn veginn líka.