138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þetta með lýðræðið og til að það virki og að vilji kjósenda komi sem best fram má ekki setja hömlur á kjósandann og segja jafnvel: Það verður að vera einn rauðhærður á listanum, einn ljóshærður og svo til helminga karlar og konur. (Gripið fram í.) Til þess að vilji kjósandans komi fram er það írska leiðin sem gildir, þá yrði það ég sem kjósandi sem kysi þær persónur sem ég treysti best til að fara með umboð mitt á Alþingi eða í sveitarstjórn og ég gæti þess vegna kosið tíu konur ef ég bæri traust til þeirra.

Það er sú hugsun sem ég er að reyna að koma í gegn. Í stað þess að segja að kjósandi þurfi að kjósa fimm konur og fimm karla, sérstaklega þegar við erum að tala um sveitarstjórnarkosningarnar. Ég vil líka nefna þau rök fyrir því að fresta gildistöku breytingar á lögum til sveitarstjórna að það verður mjög erfitt að fá fólk í framboð til sveitarstjórnarkosninga í mörgum bæjarfélögum þar sem bæjarfélögin eiga við svo mikla erfiðleika að etja.

Ef líka yrði komið á löggiltum kynjakvóta í þessum bæjarfélögum væru málin kannski enn verr stödd. Með því að kjósandinn geti birt vilja sinn og haft frjálst val, en vera t.d. ekki bundinn af kynjakvóta, eru þeir sem eru í framboði þar líka af fúsum og frjálsum vilja en kannski ekki fengnir inn á listana til þess að fylla upp eins og oft hefur verið. Ég trúi bara ekki öðru en miðað við það sem þjóðin hefur gengið í gegnum og það karllæga umhverfi sem hefur ríkt hér á landi undanfarin ár að lýðræðisástin hafi (Forseti hringir.) kviknað í hruninu og að við getum sleppt hendinni af þessum kynjakvótum.