138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:42]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Ég vil fagna þeim tveimur frumvörpum sem hér hafa verið lögð fram. Þetta eru góð mál að mínu mati. Með þeim er lagt til að kjósendum verði gefið fullt vald til að velja þingmannsefni og sveitarstjórnarfulltrúa sem þeir vilja helst að nái kjöri af þeim lista sem þeir veita atkvæði sitt. Athöfn kjósandans er að mínu mati, miðað við þá athöfn sem hér er kynnt, mjög einföld og auðskilin og byggist á talnaröðun frambjóðenda með sama hætti og tíðkast í prófkjörum og möguleg er samkvæmt núgildandi kosningafyrirkomulagi. Það er þess vegna algjör óþarfi hjá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að hafa áhyggjur af ólæsi í þessum efnum. Þetta er nákvæmlega sama aðferð og allir hafa kynnt sér í þeim prófkjörum sem haldin hafa verið eða alla vega keimlík aðferð og notuð hefur verið í prófkjörum hér á landi.

Sé það skoðun manna að rétt sé og skynsamlegt að auka raunverulegt vald kjósenda við val á frambjóðendum í kosningum með persónukjöri er sú aðferð sem hér er kynnt mjög raunhæf leið til þess. Velflestar þær athugasemdir sem bárust vegna frumvarpsins í sumar sem leið snerust um þessa grundvallarspurningu hvort menn væru á annað borð tilbúnir til þess að auka áhrif kjósenda. Það er sú spurning sem Alþingi og þingmenn verða að svara fyrst og fremst. Stendur vilji þeirra til þess að auka möguleika almennings á að velja sér fulltrúa í kosningum til sveitarstjórna og á Alþingi? Ef svarið er já er þetta raunhæf og framkvæmanleg aðferð sem hægt er að kynna með tiltölulega skömmum hætti fyrir kjósendum.

Vel er hægt að framkvæma þetta mál fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Það eru margir mánuðir til þeirra og það tekur ekki nema fimm til tíu daga að kynna með auglýsingum nýja vöru, nýja stjórnmálahreyfingu, ný tilboð á hvaða sviði sem er. Hin íslenska þjóð er geysilega vel tækjum búin þegar kemur að fjölmiðlun og ekki þarf marga mánuði til að tyggja svona einfalt kerfi ofan í fólk enda er það algjör óþarfi.

Því sjónarmiði hefur verið hreyft í þessari umræðu, bæði núna og fyrr á þessu ári, að sú aðferð sem hér sé til umfjöllunar muni verða til að ónýta þann árangur sem þó hefur náðst við að rétta hlut karla og kvenna í opinberum trúnaðarstörfum. En í því nýja fyrirkomulagi sem hér er miðað við mun þessi jafnréttiskrafa sem fyrr standa upp á stjórnmálaflokkana, þ.e. að þeir tryggi sem jafnast hlutfall karla og kvenna á persónukjörshluta framboðslista sinna. Ekki er því ástæða til að ætla annað en kjósendur muni með atkvæði sínu kalla konur til áhrifa í stjórnmálum til jafns við karla fái þeir tækifæri til þess, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Reynslan sýnir í þeim löndum þar sem þessi aðferð er viðhöfð, á Norðurlöndunum, að þar er staða kvenna í stjórnmálum hvað sterkust og þá er það staðreynd líka og sýndi sig í kosningum til hérðaðsþinga í Skotlandi að konur náðu kjöri í sama hlutfalli og þær voru í á framboðslistum.“

Þá er líka gagnrýnt að persónukjörskerfið valdi óvissu fyrir kosningar um það hver sé oddviti flokks eða framboðslista en ekkert kemur í veg fyrir að flokkarnir velji sér oddvita eða tefli fram einhvers konar leiðtoga í kosningum. Ekkert kemur heldur í veg fyrir að flokkarnir komi skilaboðum á framfæri við kjósendur sína um það hverjir þeir telji að eigi að skipa efstu sæti listans. Þetta leggur þær skyldur eða gerir það nauðsynlegt fyrir stjórnmálaflokkana að ákveða hverjir það eru sem tala fyrir hönd framboðsins, hverjir það eru sem lögð er áhersla á að nái kjöri, en með fyrirkomulaginu er kjósendum gert kleift að hafna því vali flokkanna ef þeir vilja svo og raða með öðrum hætti ef þeir vilja kjósa stefnuna en ekki einstaklinginn sem stendur að baki henni.

Auðvitað er það svo, og sér það hver maður í hendi sér, að slík framsetning er innanbúðarmál hjá stjórnmálaflokkunum. Hið endanlega vald um það hverjir nái kjöri í kosningunum er hins vegar fært frá flokknum sjálfum til kjósenda. Það kann að vera að aðeins hluti kjósenda muni nýta sér þann möguleika að raða frambjóðendum á lista og það verður þá á endanum mjög fámennur hópur eða lágt hlutfall kjósenda flokksins sem ræður því hverjir skipa forustusveitina. Það er í sjálfu sér nákvæmlega eins fyrirkomulag og nú þegar er til staðar í prófkjörum sem stjórnmálaflokkarnir halda þar sem einungis lítill hluti, mestmegnis flokksmenn, tekur þátt en almennir kjósendur mæta bara á kjörstað til þess að kjósa á kosningadegi en taka ekki þátt í prófkjörinu. Það er mín sannfæring að tími slíkra prófkjöra sé liðinn, það fyrirkomulag sem hér kemur til sögunnar sé þægilegra og eðlilegra fyrir kjósendur og fyrir allan almenning. Það setur þá kröfu á stjórnmálaflokkana að þeir stilli saman strengi sinna liðsmanna. Það hefur líka komið fram að þetta hentar mjög vel hinum smærri byggðarlögum.

Það verður að horfast í augu við það, eins og fram hefur komið í þessum umræðum í kvöld, að prófkjörin hafa í mörgum tilfellum reynst stjórnmálaflokkunum mjög erfið. Það hafa verið mikil átök og þar sem samherjar í kosningum takast á geta átökin orðið mjög hörð og persónuleg, og persónuleg átök gagnast engum í pólitík. Það sem kemur þjóðinni best eru stjórnmálamenn sem geta talað saman, unnið saman innan flokka jafnt sem á milli flokka þrátt fyrir að vera á ólíkri skoðun. Ég segi það hér og held því fram fullum fetum að það sé bara spurning um pólitískan vilja hvort menn koma þessu máli í gegn fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar og sá vilji er svo sannarlega til staðar hjá þeim sem hér talar.

Enda má líka spyrja á móti: Hver er hinn raunverulegi skaði af því að kynna svona mál til sögunnar með skömmum hætti, að ákveða nýja kosningalöggjöf og nýjar reglur tveimur eða þremur mánuðum fyrir kosningar? Hafa menn áhyggjur af því að rangt fólk verði þá kosið til trúnaðarstarfa? Hvað getur raunverulega farið úrskeiðis? Það verða einhverjir framboðslistar og einhverjir verða kjörnir sem bjóða sig fram til trúnaðarstarfa. Það er ekkert flókið við það. Þess vegna eigum við að einhenda okkur í það verk að koma þessu máli í gegnum þingið. (Gripið fram í.)