138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvörp hæstv. dómsmálaráðherra um persónukjör hvort heldur er til alþingiskosninga eða sveitarstjórnarkosninga. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að þó að ég sé mikill lýðræðissinni finnst mér við vera að gera þetta á röngum tíma. Ég upplifi það hálfpartinn þannig að þjóðarskútuna sé að reka í strand og það sé ekki verið að ræða þau mál sem þarf að ræða og leysa. Þessi frumvörp, sérstaklega persónukjör til alþingiskosninga, er mál sem við eigum alveg að geta rætt á vorþinginu. Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst verkefni Alþingis vera það mikil núna að komast í gegnum fjárlögin, Icesave-samningana, vandamál heimilanna og þar fram eftir götunum að ég hefði frekar viljað nota tímann í það en þessi mál, sérstaklega hvað varðar alþingiskosningarnar.

Síðan langar mig að ræða — og ég ætla svo sem ekki að kafa mikið ofan í þetta varðandi persónukjör í alþingiskosningum — en mig langar aðeins að staldra við það sem snýr að sveitarstjórnarkosningunum og hvað við erum að ræða þar. Þar hef ég töluverða reynslu, hef farið í gegnum nokkrar kosningar, og það er ekki sama hvort menn eru í litlu sveitarfélagi eða stóru sveitarfélagi. Reynslan er sú vítt og breitt um landið að í minni sveitarfélögum er oft mjög erfitt að fá fólk til að fara í framboð til sveitarstjórnarkosninga, því það eru ekki mjög margir sem vilja fara í þau störf og það hefur orðið erfiðara og erfiðara með árunum að fá fólk til þess. Oft geta menn fengið fólk á lista sem er tilbúið til að vera varamenn og þar fram eftir götunum en vill ekki vera aðalmenn og alls ekki í forsvari fyrir lista og standa þar í sköflunum Það er bara staðreyndin. Hins vegar er þessu oft öðruvísi farið í stærri sveitarfélögunum, þar eru oft margir um hituna sem vilja taka þetta að sér sem betur fer. Þá velti ég því fyrir mér hvað við erum í raun og veru að gera. Í staðinn fyrir að fara í prófkjör og uppstillingu erum við að færa þetta fram á kjördag. Um það er ekki deilt, það gerist með þeim hætti. Það eru margir ókostir við að gera þetta þannig vegna þess að þá liggur ekki fyrir hver á að leiða listann eða í hvaða sætum menn verða og þá gæti orðið erfitt að fá fólk í minni sveitarfélögunum til að taka þátt. Það gæti orðið mjög erfitt.

Annað sem ég velti fyrir mér þegar menn eru að fara í þá vegferð að gera þetta með þessum hætti, af hverju fara menn þá ekki alla leið og segja: Nú erum við að fara í sveitarstjórnarkosningar og það eru 7 aðalmenn í bæjarstjórn eða 9 eða 11 eða 15, og þá eigum við bara að fá að velja 15 alveg sama á hvaða lista þeir eru. Mér finnst að það væri hið eðlilega form, þ.e. þú ferð inn í kjörklefann og mátt kjósa þrjá af öðrum listanum, tvo af hinum listanum og bara alveg eins og þú vilt. Ég held að það væri í raun og veru hið eina sanna persónukjör. Þá fer þetta í raun og veru að virka eins og til er ætlast vegna þess að ef menn gera þetta eins og lagt er til í frumvarpinu tel ég að það nái ekki alveg tilgangi sínum.

Síðan verða menn líka að átta sig á því að áður en farið er að stilla upp á listana verður að fara fram ákveðið forval eða uppstilling eða prófkjör eða hvernig sem það er gert um þá 14 einstaklinga t.d. þar sem eru sjö manna sveitarstjórnir og hverjir eigi að vera á listunum og síðan fara menn að handraða eftir því og þá er í raun og veru farið í þetta forval á undan í staðinn fyrir að menn gætu verið með þetta marga aðila frá hvaða framboðslista sem er og svo velja menn bara sína frambjóðendur eftir því hverja þeir vilja hafa í sveitarstjórnum vegna þess að sveitarstjórnarkosningar eru dálítið öðruvísi en alþingiskosningar. Þá mundu menn geta náð miklu markvissari árangri í þessum málum því að það er oft þannig, frú forseti, að menn sem eru í sama flokki geta oft ekki unnið saman þó að þeir eigi mjög gott með að vinna með fólki á öðrum listum, þannig að það gæti verið skynsamlegt að gera þetta með þessum hætti. Og ef farið er í þetta á annað borð held ég að það eigi að gera þetta svona, að fara alla leið.

Það sem mér finnst líka mjög sérkennilegt í þessari umræðu er eins og hv. þm. Róbert Marshall sagði áðan: Hér er bara nógur tími. Ég veit reyndar að hv. þingmaður hefur ekki verið mikið hérna við undanfarið en það er nú svo, frú forseti, að á laugardaginn er prófkjör t.d. hjá sjálfstæðismönnum á Seltjarnarnesi, þannig að menn eru byrjaðir að vinna eftir þeim reglum og lögum sem eru í gildi í dag. Ég tel því mjög óraunhæft og bara óraunsætt og óskynsamlegt að fara að gera þetta núna, að ætla að fara að koma þessu inn í sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Ég held að það væri nær að fá t.d. ef það væru fyrir hendi einhver tilraunasveitarfélög, ef ég má orða það þannig, sem væru hugsanlega tilbúin að prófa þetta módel, að fá bara eitt, tvö eða þrjú sveitarfélög eða hvað sem menn telja að þurfi að vera og auglýsa það og þá kæmu sveitarfélögin og gæfu kost á því að prófa þessa leið. Það er nú svo, frú forseti, að þó að maður geti fundið þessu allt til foráttu að þá eru kostir og gallar við þetta alveg sama hvernig við framkvæmum það. Það eru kostir gallar við þetta hér og það eru líka kostir og gallar við kerfið eins og framkvæmt er í dag.

En það sem við þurfum líka að átta okkur á er að t.d. bæði í stórum sveitarfélögum og alþingiskosningum, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir benti á áðan í sinni mjög góðu ræðu, þá fara menn oft út í vitleysu, sérstaklega hvað varðar kostnaðinn, menn fara oft villir vegar, og ég velti því fyrir mér hvort það sé einhver trygging fyrir því í þessu frumvarpi að menn ætli að stýra þessu þannig að menn fari ekki út í slíka vitleysu. Ég vil einnig benda á, og það hefur líka komið fram í umræðunni í kvöld, að þegar nýtt fólk vill komast á vettvang stjórnmálanna hvort heldur það er í sveitarstjórnarkosningum í stærri sveitarfélögum eða minni — það er auðveldara í minni sveitarfélögunum, flestum held ég, ég ætla samt ekki að fullyrða um það, það er ekki hægt að alhæfa það en í flestum er það þannig að það er auðveldara — að í stærri sveitarfélögum og í alþingiskosningum um allt land er það dýrara fyrir einstaklinga sem eru að stíga sín fyrstu skref vegna þess að þeir eru kannski að keppa við fulltrúa sem eru búnir að sitja lengi á þingi og þannig að það er erfiðara fyrir fólk að komast að.

Ég held hins vegar að þetta þurfi ekki að vera pólitískt deilumál á Alþingi. Auðvitað vilja allir að persónukjör og sú hugsun sem þar er að baki leiði til þess að einstaklingarnir sem taka þátt í kosningunum fái meira vægi. Það er bara hin lýðræðislega hugsun og það skiptir engu máli hvar við erum í pólitík hvað það varðar, við viljum það öllsömul, en það eru mörg atriði þarna sem við þurfum að fara varlega í. Svo verð ég að segja eitt til að taka upp hanskann fyrir sveitarfélögin: Af hverju er Alþingi að stefna að því núna að gera þau að einhvers konar tilraunadýrum? Ef við ætlum að framkvæma þetta í sveitarstjórnarkosningunum í vor, sem ég reyndar persónulega tel að sé óraunhæft og óframkvæmanlegt bara vegna þess að menn eru komnir það langt í vinnu við þær og við vitum ekki hvort og hvenær þetta verður klárað, væri ekki skynsamlegra að fara þá leið að auglýsa eftir sveitarfélögum til að prófa þetta eða þá að Alþingi gerði það sjálft hjá sjálfu sér og sé ekki að nota sveitarfélögin sem tilraunadýr? Það yrði bara þannig að í næstu alþingiskosningum kjósum við eftir þessu. Það hefur reyndar margoft komið fram í umræðum að hv. þingmenn sem sitja í allsherjarnefnd, og hún einstaklega vel skipuð, gætu væntanlega gert eitthvað til að taka helstu agnúana af þessu. Ég velti þessu upp í umræðunni bara í vinsemd hvort það væri ekki skynsamlegra fyrir okkur öll vegna þess að þetta er ekki ágreiningur um það sem við viljum heldur hvernig við stöndum að því og ég held að það væri mjög skynsamlegt að gera það með þessum hætti.

Ég ætla ekki að dvelja miklu lengur við þetta, frú forseti, það hafa komið fram í umræðunni, sem hefur að mínu viti verið málefnaleg, helstu kostir og gallar og þau sjónarmið sem fólk hefur en ég treysti því að hv. allsherjarnefnd skoði þetta með því hugarfari sem ég er að leggja til, að menn fái hugsanlega einhver örfá sveitarfélög til að taka þátt í þessu verkefni en reyni ekki að keyra þetta með offorsi inn á sveitarfélögin sem hafa flestöll lýst yfir litlum áhuga á þessu.