138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég dreg ekki í efa, enda sagði ég það í ræðu minni hér áðan, að þetta mál hafi verið afgreitt með venjulegum hætti í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarflokkanna. Ég dreg það ekki í efa, það er staðreynd. Það er þess vegna sem þessi umsögn stjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti. Umsögnin felur vissulega í sér ýmsar athugasemdir og vangaveltur eins og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir gerði grein fyrir en afstaða flokksins, afstaða stjórnar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem kjörin er á landsfundi þess flokks þar sem eru í forustu hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur Jóhann Sigfússon og hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir, sú stjórn segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Stjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er ljúft og skylt að veita umsögn um ofangreint frumvarp og leggur hún til að því verði vísað inn í umræðuna um stjórnlagaþing.

Í frumvarpi um stjórnlagaþing sem lá fyrir á 137. löggjafarþingi segir í 3. gr.: Stjórnlagaþing skal sérstaklega taka til umfjöllunar eftirfarandi þætti: Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.

Frumvarpið um persónukjör er ófullkomið og þarf mun betri umfjöllun áður en það er tilbúið til afgreiðslu.“

Þetta er áhugavert að sami flokkur og hefur á vettvangi ríkisstjórnar og þingflokks samþykkt að leggja málið fram, segir á vettvangi stjórnarflokksins að málið sé ófullkomið og þurfi mun betri umfjöllun og vill að því verði vísað til stjórnlagaþings. Og það er ekki þannig að stjórn VG sé bara eitthvert fólk úti í bæ, umboðslítið fólk sem enginn hefur kosið, þetta er sjálfur leiðtogi flokksins sem er þarna í forustu og hefur stýrt þeim fundi þegar þetta er ákveðið og varaformaður flokksins, hæstv. menntamálaráðherra, þau sitja þarna í forustu, eins og þau sitja í forustu í þingflokki VG, þar sem (Forseti hringir.) þetta mál hefur verið samþykkt. Og ég skil bara hvorki upp né niður í þessu.