138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[20:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki tónninn í umsögn stjórnar VG að málið eigi að fá einhverja umfjöllun hér á Alþingi. Þar segir berum orðum að það eigi að vísa málinu til stjórnlagaþings. Þar er það bara sagt alveg skýrt. Stjórnin leggur til að frumvarpinu verði vísað inn í umræðuna um stjórnlagaþing. Það er afstaða stjórnar VG til málsmeðferðar í þessu máli, þó að ég skilji það að hv. formaður allsherjarnefndar reyni að leggja allt á besta veg fyrir samstarfsflokk sinn og það er virðingarvert í sjálfu sér. En þegar horft er á þetta í því samhengi að þarna stendur sami flokkurinn að verki og það eru sömu einstaklingar sem eru í forustu, bæði í þingflokknum og í stjórn VG, þá er þetta mjög illskiljanlegt — þetta er mjög illskiljanlegt. Að sami maður geti setið í einu herbergi og skrifað upp á tillögu þar sem sagt er: „frumvarpið á að fara til stjórnlagaþings“ á sama tíma og hann situr í einhverju öðru herbergi og segir: „frumvarpið á að fara til Alþingis“. Ég átta mig ekki á þessu.

En eins og vakin hefur verið athygli á þá er enginn hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í salnum til þess að útskýra þetta fyrir okkur og enginn þeirra hefur sést hér í dag. Og ég veit ekki hvernig á að túlka þá fjarveru. Í Icesave-málinu var ósköp auðvelt að túlka fjarveru þeirra, að hæstvirtum fjármálaráðherra undanteknum, með því að þeir vildu einfaldlega ekki láta bendla sig við málið, þeir vildu ekki lenda í þeirri stöðu að vera spurðir út í afstöðu sína til þess máls, að þeir forðuðust að vera í salnum út af því. En í þessu máli hefði verið fróðlegt að fá öll þau sjónarmið sem greinilega eru uppi innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessa umræðu. Annars vegar hefði hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur Jóhann Sigfússon getað komið og útskýrt hvers vegna hann vildi að málið færi til stjórnlagaþings. Og hins vegar hefði hann getað komið og útskýrt hvers vegna vill hann að málið fari í meðferð á Alþingi. Hann hefði getað útskýrt það fyrir okkur. (SVÓ: Þú spyrð hann bara að því.)